Einstæður fundur – gler frá víkingaöld

Einhver merkilegasti fornleifauppgröftur síðari tíma er fornleifarannsóknin í Firði í Seyðisfirði. Ragnheiður Traustadóttir stjórnar uppgreftrinum og rannsóknum. Hún er gestur Dagmála í dag og greinir frá áður ónefndum grip sem fannst við uppgröftinn. Það er glerbrot og gæti verið hluti af spegli.

Ragnheiður segir að gripurinn sé frá tímabilinu 940 til þúsund og hún kannast ekki við að gler hafi fundist frá þeim tíma, áður á Íslandi.

Yfir 4.000 gripir skráðir

Samtals hafa verið skráðir yfir fjögur þúsund gripir við uppgröftinn sem staðið hefur í fimm ár. Þar kom margt fornleifafræðingum á óvart og ræðir Ragnheiður það í þaula í þættinum. Uppi er hugmyndir um hvort í Firði hafi verið framleitt vaðmál til útflutnings og jafnvel fleiri hlutir.

Viðtalið við Ragnheiði er afar áhugavert fyrir alla þá sem hafa áhuga á sögu forfeðra okkar frá því þeir stigu fyrst á land á ósnertu Íslandi. Landnámsmaðurinn Bjólfur nam land í Seyðisfirði og hægt er að leiða líkum að því að þau kuml sem fundist hafa við uppgröftinn geymi mikinn höfðingja frá víkingaöld og jafnvel sjálfan Bjólf.

Í viðtalsbrotinu sem fylgir fréttinni greinir Ragnheiður frá fundinum  á glerinu sem kom henni og öðrum forleifafræðingum mjög á óvart.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins. 

Unnið við fornleifauppgröft. Myndin er úr safni.
Unnið við fornleifauppgröft. Myndin er úr safni. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert