Ekki um eðlilega stjórnsýslu að ræða

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að ekki hafi verið um eðlilega stjórnsýslu að ræða þegar brottflutningi Yazans Tamimi úr landinu var frestað í gær. Segir hún að færa megi rök fyrir því að hún hafi tekið geðþóttaákvörðun.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í Silfr­inu á RÚV í kvöld þar sem rætt var við Guðrúnu, Sigurð Inga Jóhannsson fjármálaráðherra, Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, og Jóhann Pál Jóhannsson, þingmann Samfylkingarinnar. 

„Við erum með stjórnvöld til þess að taka þessar ákvarðanir og þau gerðu það. Ég sagði hér áðan og ég hef sagt það í dag að ég ber fullt traust til Útlendingastofnunnar og kærunefndar útlendingamála,“ sagði Guðrún eftir að hún var spurð um traust til kerfa landsins en komist hafði verið að niðurstöðu á tveimur stigum um að Yazan yrði sendur úr landi.

Þurfi að koma á fót brottfararúrræðum

„Þetta er það ferli sem við höfum sammælst um að fara í gegnum. Hér kom umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einhverjir fá já og einhverjir fá nei og það er erfið staða þegar að einstaklingar neita að yfirgefa landið sem hér fá synjun, neita allri samvinnu við stjórnvöld en ber samt að fara,“ sagði dómsmálaráðherrann og bætti við.

„Þess vegna hef ég talað fyrir því að við þurfum að koma hér á fót brottfararúrræðum. Ég er með það núna á þingmálaskrá minni í haust að leggja hér fram frumvarp um brottfararúrræði til þess að við getum framfylgt þessari skyldu okkar innan Schengen-samstarfsins með fullnægjandi hætti.“

Spurð hvort hún hefði tekið geðþóttaákvörðun sagði dómsmálaráðherrann að hægt væri að færa rök fyrir því.

„Ég hef í raun ekki lagalega heimild til þess að stíga inn í svona mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert