Sýni úr föðurnum send til rannsóknar

Grímur segir lögreglu skoða aðdraganda andláts stúlku á grunnskólaaldri.
Grímur segir lögreglu skoða aðdraganda andláts stúlku á grunnskólaaldri. Samsett mynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir sjónum sínum að því að reyna að átta sig á hugarástandi föður á fimmtugsaldri sem grunaður er um að hafa ráðið dóttur sinni á grunnskólaaldri bana.

Lögregla leggur mest kapp á að rannsaka aðdraganda andláts stúlkunnar.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir að sýni úr manninum hafi verið sent til rannsóknar til að fá úr því skorið hvort maðurinn hafi verið undir áhrifum. Þó sé ekkert sem bendi til þess að svo hafi verið. Maðurinn hefur hlotið dóma fyrir fíkniefnalagabrot en Grímur segir að ekki sé litið svo á að það tengist þessu máli. 

„Við erum ekki á þeim stað að geta svarað því út í hörgul hvað gerðist. Við erum að reyna að átta okkur á því – aðdragandann, atvikið sjálft og hvatann til þess,“ segir Grímur. 

Veit ekki til forræðisdeilu 

Var einhver forræðisdeila í gangi?

„Ekki svo ég viti,“ segir Grímur.

Hann segir að Háskóli Íslands sé með sýni úr manninum til rannsóknar til að athuga hvort hvort maðurinn hafi verið undir áhrifum lyfja. En ekkert bendi til þess við frumathugun að svo hafi verið. 

„Hann var handtekinn nokkurn spöl frá því sem líkið fannst. Hann var fótgangandi,“ segir Grímur.

Hefur maðurinn borið sér eitthvað til málsbóta eða segist hann bera ábyrgð á manndrápi?

„Við höfum ekki farið út í það sem kemur í yfirheyrslum.“

Útilokar ekki fleiri handtökur 

Spurður hvort einhverjir aðrir tengist atvikinu, þá úttalar Grímur sig ekki um það.

„Það getur vel gerst við rannsókn mála að fleiri verði handteknir en eins og staðan er þá hefur einn verið handtekinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert