Varpar ljósi á klæði kvenna við landnám

Óvenjulega vel varðveitt kuml fundust við fornleifauppgröft við bæinn Fjörð í Seyðisfirði. Af mörgum merkisgripum hefur vakið mesta athygli að hluti af kápu eða skikkju konu varðveittist í kumlinu. Afar sjaldgæft er að lífræn efni varðveitist á Íslandi og gerir þetta fundinn enn merkilegri.

Í kvenkumlinu fundust leifar af fatnaði sem munu varpa betra ljósi á klæðnað kvenna á víkingaöld, eða við landnám kvenna. Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og stjórnandi rannsóknarinnar í Firði segist hafa leitað til mjög færs textílsérfræðings við Óslóarháskóla til að fá ráðgjöf varðandi varðveislu og greiningu á fatnaðinum.

Fyrstu viðbrögð voru að viðkomandi sérfræðingur var gersamlega á haus og upptekinn í verkefnum. Engu að síður sendi Ragnheiður mynd af klæðisbútunum og nokkrum mínútum síðar hringdi umræddur sérfræðingur og sagðist klár í slaginn. Þessi fundur hefur vakið mikla athygli og þjóðminjasafnið í Danmörku er einnig að taka þátt í greiningu á klæðabútunum.

Einstakt tækifæri 

Ragnheiður lítur á þetta sem einstakt tækifæri til að öðlast meiri vitneskju á klæðaburði kvenna á víkingaöld og því handbragði sem beitt var við gerð þeirra. Þá er það ekki síður sjaldgæft tækifæri að fornleifafræðingar grafi upp ósnert kuml. Algengara er að þau finnist við vegagerð, eftir uppblástur eða hafi orðið fyrir einhverskonar raski áður en fræðimennirnir komast að þeim.

Fatnaður konunnar ber þess skýr merki að hún var efnuð og lagt með henni ríkulegt haugfé. Fyrir utan skikkju fannst skyrta eða skokkur með böndum sem kúpt nælur voru notaðar til að festa.

Taka mun nokkur ár að fá loka niðurstöður úr nauðsynlegum rannsóknum á fatnaðinum. 

Þátturinn með Ragnheiði er opinn áskrifendum Morgunblaðsins en þeim hluta viðtalsins sem hér fylgir segir hún frá þessum merka fundi og þeirri kenningu eða hugmynd að umfangsmikil framleiðsla á textíl eða vaðmáli virðist hafa farið fram í Firði og jafnvel til útflutnings. Það er allavega ljóst að þar var ekki eingöngu stundaður sjálfsþurftarbúskapur, ef miðað er við þá fjölmörgu gripi sem fundist hafa og tengjast vefnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert