„Við erum ekki hafin yfir gagnrýni“

Stjórnendur Helgafellsskóla hafa fengið á sig töluverða gagnrýni síðustu daga.
Stjórnendur Helgafellsskóla hafa fengið á sig töluverða gagnrýni síðustu daga. mbl.is/​Hari

Sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar segir þá gagnrýni sem hefur komið fram á úrvinnslu mála í Helgafellsskóla tekna alvarlega, líkt og alla aðra gagnrýni á skóla- og frístundaþjónustu. Þegar upp komi mál sé farið yfir það hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis og hvað megi þá bæta.

Helgafellsskóli hefur verið töluvert í fréttum síðustu daga, en foreldrar hafa meðal annars gagnrýnt aðgerðarleysi í eineltis- og ofbeldismálum. Á sunnudag var greint frá máli stúlku sem var sögð hafa mátt þola alvarlegt ofbeldi af hálfu samnemanda án þess að skólinn hefði gripið almennilega inn og tóku foreldrar hennar hana að lokum úr skólanum.

Þá var í gær greint frá því að móðir hefði tekið þrjá drengi sína úr skólanum, en hún sagði þá bæði hafa orðið fyrir einelti af hálfu samnemanda og ofbeldi af hálfu kennara. Einnig að skólinn hefði brugðist með því að afhenda einn drengjanna einstaklingi sem mátti alls ekki sækja hann. Þá hefur blaðamaður upplýsingar um fleiri mál þar sem foreldrar hafa tekið börn sín úr skólanum vegna mikillar óánægju með stjórnendur. 

Vinna að farsælli lausn mála

„Ef það kemur fram gagnrýni á störf okkar skoðum við það að sjálfsögðu alltaf. Við erum ekki hafin yfir gagnrýni frekar en nokkur annar. Þetta er hlutur sem við viljum gera vel og við skoðum að sjálfsögðu verklag okkar og ferla þegar eitthvað kemur upp og þegar við fáum ábendingar um að eitthvað geti farið betur,“ segir Ólöf Kristín Sívertsen, sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.

Þessi mál sem hafa verið í fréttum verða þá til þess að þið farið yfir ferla ykkar?

„Við viljum alltaf leggja okkur fram um að gera hlutina vel. Við erum með það dýrmætasta sem foreldrar eiga, sem er börnin þeirra.“

Spurð hvort málin sem ratað hafa í fjölmiðla séu alvarlegri en talið var, eða alvarlegri en þau höfðu upplýsingar um, segist hún ekki geta svarað því.

„Við erum að vinna með öllum aðilum að farsælli lausn mála og við leggjum mikla áherslu á að vinna vel með heimilunum, að það sé gott samstarf heimilis og skóla.“


Sjá stundum að mögulega megi gera betur

En þegar það koma upp nokkur mál sem beinast að ákveðnum skóla eða ákveðnum stjórnendum, þarf að skoða það enn frekar eða grípa inn í?

„Það er alveg sama hvaða mál kemur upp, við förum alltaf í að skoða hvort og þá hvað við getum gert betur og endurskoðum ferla.“

Þannig að þið eruð að taka föstum tökum þá gagnrýni sem hefur komið fram á þennan skóla og stjórnendur?

„Það er alveg sama hvaða gagnrýni kemur, hvaðan hún kemur og á hvern, þetta er nokkuð sem við skoðum alltaf því störf okkar eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en störf annarra. Við tökum að sjálfsögðu allt slíkt alvarlega.“

Ólöf Kristín Sívertsen er sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.
Ólöf Kristín Sívertsen er sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.

Og teljið þá að þið getið eitthvað bætt úr?

„Já, það er tilgangurinn ef við erum að endurskoða hvað við getum gert betur, það er að bæta hlutina. Það eru allir alltaf að vinna eftir sinni bestu getu en stundum sjáum við að mögulega hefði mátt gera betur og þá lærum við að sjálfsögðu af því.“

Þið teljið þá að í þessu máli hefði verið hægt að gera betur?

„Við erum bara að vinna í þessu máli, þannig að ég get ekki svarað þér af eða á.“

Segir ekki óvenjumikið um einelti í skólanum

Blaðamaður hefur fengið upplýsingar um nokkur eineltismál þar sem foreldrar vilja meina að lítið sem ekkert hafi verið að gert og eineltið látið viðgangast, jafnvel árum saman. Spurð hvort hún telji að unnið sé nógu vel úr eineltismálum innan skólans segir Ólöf verið að fara í gegnum alla þá ferla.

„Ég get því ekki svarað hvort það hafi verið unnið nógu vel eða ekki. Við leggjum okkur alltaf fram um að gera hlutina eins vel og við getum en við viljum fá ábendingar ef við erum ekki að gera nógu vel, til þess að við getum bætt okkur.“

Er óvenjumikið um einelti í þessum skóla?

„Ekki mér vitanlega, nei.“

En óvenjumörg ofbeldismál? 

„Nei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert