Ráðherra verðlaunaði fjögur ungmenni

Maymi Asgari, Amir Ranjbar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Panashe Kauhanen og …
Maymi Asgari, Amir Ranjbar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Panashe Kauhanen og Eleonora Svanberg. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, afhenti í dag verðlaunin Nordic Pioneer Prize í Kaupmannahöfn. Verðlaunin eru veitt árlega til eldhuga og frumkvöðla á aldrinum 18-25 ára á Norðurlöndunum sem hafa með hugrekki og frumkvæði leitast við að auka öryggi og samheldni í nærsamfélagi sínu með því að takast á við skautun, hatur og félagslega útskúfun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

„Sendiráð Norðurlanda í Danmörku standa til skiptis að verðlaunaafhendingunni ásamt Nordic Safe Cities en það eru félagasamtök með þátttöku borga á Norðurlöndum sem vinna að því að styrkja lýðræðisleg gildi og koma í veg fyrir ofstækis- og öfgahyggju á Norðurlöndum. Samtökin voru sett á laggirnar með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Kaupmannahöfn árið 2015.  Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn var gestgjafi verðlaunanna í ár,“ segir í tilkynningunni.

Fjórir hlutu verðlaunin í ár

Í ár hlutu verðlaunin þau Eleonora Svanberg, Maymi Asgari, Amir Ranjbar og Panashe Kauhanen.

Er Svanberg hálfsænsk og hálfpersnesk og stofnaði félagasamtökin Girls in STEM sem vinna að aukinni hlutdeild kvenna í náttúruvísindum. Hefur hún t.a.m. unnið með UNESCO, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Geimferðastofnun Evrópu og Friðarverðlaunum Nóbels

Asgari er fótboltakona og baráttukona fyrir jafnrétti, ekki síst fyrir konur í minnihlutahópum í íþróttum. Berst hún markvisst gegn fordómum með því að birta efni á samfélagsmiðlum þar sem hún er með höfuðslæðu og sýnir mikla leikni með boltann. Heldur hún námskeið þar sem hún kennir krökkum boltafimi og hefur hún deilt reynslu sinni í skólum af þeirri mismunun sem hún varð fyrir sem barn í Danmörku þegar hún æfði fótbolta með slæðu.

Amir Ranjbar er frá Noregi og er leiðtogi Wild X sem eru félagasamtök sem hafa það að markmiði að opna nýjar leiðir fyrir ungt fólk til þess að sækja út í náttúruna. Ungt fólk getur þar farið á veiðar, farið í tjaldútilegur og lært nýjar leiðir í félagsfærni.

Panashe Kauhanen er stofnandi Fashcene Underground sem hefur það að markmiði að skapa rými í heimi tískunnar fyrir ungt skapandi fólk með ólíkan bakgrunn. Fashcene er tískusýning með lifandi tónlist og fer fram árlega í Åbo/Turku í Finnlandi. Panashe notar þannig tísku til að stuðla að inngildingu.

Metfjöldi tilnefninga barst til verðlaunanna

„Við verðum stöðugt að minna okkur á að við getum glatað frelsinu sem við höfum öðlast. Mikilvægt er að byggja upp betra samfélag þar sem við getum öll dafnað. Til þess þurfum við jákvæðni, góðar fyrirmyndir og samheldni. Við megum ekki standa þegjandi hjá þegar við verðum vitni að órökstuddum staðhæfingum sem kynda undir ótta og hatur,“ sagði Guðmundur Ingi við athöfnina í dag.

Guðmundur Ingi flutti ávarp á verðlaunaafhendingunni.
Guðmundur Ingi flutti ávarp á verðlaunaafhendingunni. Ljósmynd/Aðsend

„Þess vegna erum við hér í dag. Til að fagna þeim sem er ekki sama, þeim sem grípa til aðgerða og sýna samúð, skilning og hugrekki,“ er haft eftir ráðherranum. 

Í tilkynningunni kemur fram að metfjöldi tilnefninga hafi borist til verðlaunanna í ár og að valið hafi verið erfitt.

Þá fundaði Guðmundur Ingi fyrr í dag með vinningshöfunum og öllum sendiherrum Norðurlandanna í Kaupmannahöfn, þar á meðal Pétri Ásgeirssyni, sendiherra Íslands í Danmörku.

Var fundarefnið hatursorðræða á netinu og áhrif hennar á lýðræðislega umræðu og lýðræðislega þátttöku meðal ungs fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert