Stórfyrirtæki byggja upp á Hólmsheiði

Forsvarsmenn fyrirtækjanna og Einar Þorsteinsson borgarstjóri handsöluðulóðarvilyrði um uppbyggingu á …
Forsvarsmenn fyrirtækjanna og Einar Þorsteinsson borgarstjóri handsöluðulóðarvilyrði um uppbyggingu á Hólmsheiði í dag. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fyrirtækin Ölgerðin, Alvotech, Parlogis, Veritas og Safari vilja byggja upp starfsemi sína á nýju atvinnusvæði á Hólmsheiði. Í tilefni af því fóru forsvarsmenn þeirra og borgarstjóri á svæðið og handsöluðu lóðarvilyrði um uppbyggingu á þessu nýja athafnasvæði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Mun Ölgerðin byggja upp vöru- og dreifingarmiðstöð, auk vatnsátöppunarverksmiðju og Alvotech reisa pökkunarmiðstöð og kæligeymslur fyrir líftæknilyfjaframleiðslu fyrirtækisins.

Parlogis mun reisa hátæknivætt vöruhús og ætlar Veritas að byggja vöruhús fyrir heilbrigðisstarfsemi.

Þá ætlar Safari að reisa nýjar höfuðstöðvar á svæðinu.

Áætlaðar tekjur um 4,4 milljarðar

 „Reykjavík er á miklu vaxtarskeiði og nýjum borgarhlutum og hverfum fer fjölgandi. Í dag eru um 2.500 íbúðir í byggingu og nú bætist við nýtt athafnasvæði fyrir fyrirtækin í borginni. Með athafnasvæðinu á Hólmsheiði er fyrirtækjunum gert kleift að vaxa og dafna innan borgarmarkanna og undirtektirnar hafa verið frábærar. Það er sérstaklega ánægjulegt að borgin og þessi flottu fyrirtæki ganga í takt þegar kemur að því að gæta sérstaklega vel að náttúrunni á svæðinu,” er haft eftir Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra Reykjavíkur.

Í tilkynningu kemur fram að borgarráð hafi samþykkt lóðarvilyrðin og gert er ráð fyrir að deiliskipulag verði auglýst í október. Þá muni deiliskipulagið taka mið af þörfum fyrirtækjanna og umhverfissjónarmiðum.

Áætlaðar tekjur borgarinnar af sölu byggingarréttar og álagningu gatnagerðargjalda eru um 4,4 milljarðar.

Nýtt atvinnusvæði með stórum lóðum er í undirbúningi á Hólmsheiði.
Nýtt atvinnusvæði með stórum lóðum er í undirbúningi á Hólmsheiði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Gæta þarf sérstaklega að vatnsverndarsjónarmiðum

„Fyrirtækin voru valin eftir að auglýst var eftir áhugasömum aðilum fyrr á þessu ári og var ákveðið að ganga til samninga um lóðarvilyrði við fyrirtækin fimm í fyrsta fasa. Við val fyrirtækja var haft að leiðarljósi að starfsemi væri ekki mengandi, en gæta þarf sérstaklega að vatnsverndarsjónarmiðum og öðrum umhverfisþáttum vegna nálægðar við vatnsból. Kallað var eftir áhuga fyrirtækja áður en deiliskipulagsvinnu lyki til að hægt væri að fá þau að borðinu snemma í ferlinu til að auðveldara væri að mæta þörfum þeirra. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag verði auglýst í október og þá verður kallað eftir ábendingum hagaðila,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Þá kemur fram að nú þegar hafi verið unnin vatnafarsgreining til að meta hættu á mengun gagnvart nærliggjandi vatnsbólum og með hliðsjón af viðmiðum vatnsverndarskipulags verður fyrirhugað athafnasvæði skilgreint sem öryggissvæði vegna yfirborðsvatns.

Einnig liggur fyrir kortlagning á jarðfræði svæðisins eða sprungugreining og segir í tilkynningunni að það sé nýtt að niðurstöður slíkrar greiningar liggi fyrir við upphaf skipulagsvinnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert