Þórdís ávarpar allsherjarþing SÞ annað kvöld

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð í ræðustól allsherjarþings SÞ árið 2022.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð í ræðustól allsherjarþings SÞ árið 2022. UN Photo/Ariana Lindquist

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mun ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á morgun í New York.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Þórdís hafi tekið þátt í fjölmörgum fundum og viðburðum í tengslum við ráðherraviku allsherjarþingsins.

„Orð eru til alls fyrst og hér er umræðutorg heimsins, þar sem fulltrúar frá öllum heimshornum koma saman til að ræða hvernig við getum í sameiningu mætt þeim áskorunum sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir,“ er haft eftir Þórdísi í tilkynningunni.

Ísland hjálpi til við að efla traust

„Hér viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar við að efla traust milli ríkja, byggja brýr og styrkja alþjóðakerfið nú þegar hriktir í stoðum þess á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum.“

Gert er ráð fyrir því að Þórdís Kolbrún stígi í ræðustól um klukkan 20.30-21.30 að íslenskum tíma og verður ávarpið sýnt í beinu streymi á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ávarpaði þingið á þriðjudag.

Kominn tími á að heimurinn hlusti á afganskar konur

Þórdís tók þátt í viðburði í gær sem sneri að brotum talíbana í Afganistan á samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum.

Tilefni viðburðarins var vegna þess að Þýskaland, Kanada, Holland og Ástralía hafa hafið ferli sem lýkur að öllum líkindum með málshöfðun fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og er Ísland í hópi stuðningsríkja þessa framtaks.

„Það er kominn tími til að heimurinn hlusti á afganskar konur og ákall þeirra um að talíbanar verði dregnir til ábyrgðar. Ísland leggur áherslu á þýðingarmikla þátttöku afganskra kvenna í því ferli og það var ánægjulegt að sjá stuðning við þetta mál þvert á heimshluta,“ er haft eftir Þórdísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert