Vill breytingar: Ekki tekið ákvörðun um framboð

Áslaug Arna kveðst alltaf hafa verið tilbúin að taka að …
Áslaug Arna kveðst alltaf hafa verið tilbúin að taka að sér stærri verkefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kveðst finna fyrir ákalli um kynslóðaskipti hjá Sjálfstæðisflokknum. Hún segir ekki tímabært að tala um formannsframboð og hefur ekki tekið ákvörðun um framboð.

Þetta kemur fram í samtali hennar við mbl.is.

Áslaug skrifaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hún skrifaði meðal annars:

„Ég vil sjá breytingar á Sjálfstæðisflokknum þar sem byggt er á traustum grunni um frelsi einstaklingsins. Við þurfum að fylgja eftir hugsjónum okkar um frjáls viðskipti, lægri skatta, einstaklingsfrelsi og minna ríkisvald – en allt eru þetta þættir sem núverandi og fyrrverandi stuðningsmenn flokksins kalla eftir.“

Allir þurfi að íhuga stöðu sína

Hún segir að með greininni hafi hún verið að mæta því ákalli sem sjálfstæðismenn verða varir við um ákveðnar breytingar og meiri árangur. Hún kveðst heyra að sumir telji lausnina felast í því að leita til annarra flokka eða alfarið með nýju fólki, en hún er ekki á þeirri skoðun.

„Ég heyri þetta og hef sjálf talað fyrir ýmsum breytingum en það sem aðskilur okkur er að ég hef enn þá trú á sjálfstæðisstefnunni og Sjálfstæðisflokknum,“ segir Áslaug.

Spurð hvort að hún sé nær því að taka ákvörðun um formannsframboð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar segir Áslaug:

„Það er ekki tímabært að tala um slíka ákvörðun og ég hef ekki tekið hana. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki sagt skilið við stjórnmálin og leiðir ríkisstjórnina. En ég hef alltaf verið tilbúin að taka að mér stór verkefni. Eins og ég segi í greininni að þá finnst mér við öll þurfa að íhuga stöðu okkar og það gildir í báðar áttir og þar er ég ekki undanskilin.“

Fundið fyrir stuðningi og hvatningu

En finnurðu fyrir meira ákalli um að þú farir í formannsframboð, skyldi Bjarni ekki gefa aftur kost á sér?

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi og hvatningu á þá leið að það þurfi ákveðin kynslóðaskipti. Ég hef fundið fyrir mikilli hvatningu til þess að stíga fastar fram og standa fyrir þeim breytingum sem ég hef oft viðrað og hvernig við nálgumst bæði kerfisbreytingar sem og hvernig við nálgumst kjósendur í öllum aldursflokkum og fleira,“ svarar hún.

Áslaug segir að verkefnin fyrir hendi núna séu með þeim hætti að flokkurinn þurfi að einbeita sér að þeim fyrst og fremst, en vangaveltur um það hver leiði flokkinn í næstu kosningum verði að fá að bíða.

Alltaf tilbúin að taka að sér stærri verkefni

En þú ert opin fyrir því að leiða flokkinn í næstu kosningum?

„Eins og ég viðraði í greininni þá finnst mér reynsla úr stjórnmálum vera gríðarlega dýrmæt í bland við mikilvæga reynslu úr atvinnulífinu. Ég hef alltaf verið tilbúin til að taka að mér stærri verkefni eins og síðustu ár hafa sýnt,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert