Björg komin frá Finnlandi

Björg hífð frá borði Brúarfoss í Sundahöfn í dag en …
Björg hífð frá borði Brúarfoss í Sundahöfn í dag en smíði hennar fór fram í Finnlandi. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Nýtt björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Björg, er komið til landsins frá Finnlandi þar sem smíði þess lauk nýverið í skipasmíðastöðinni Kewatec og var Björg hífð í land úr Brúarfossi Eimskipafélagsins í Sundahöfn um hádegisbil í dag. Frá þessu greinir Landsbjörg í fréttatilkynningu.

Segir þar enn fremur að Björg sé fjórða skipið í nýsmíðaverkefni Landsbjargar og mun það leysa nöfnu sína af hólmi, samnefnt skip á Rifi á Snæfellsnesi sem nú er 36 ára gamalt, smíðað árið 1988. Er meðalaldur þeirra björgunarskipa sem nú á eftir að endurnýja 38 ár.

Gísli Jóns barnið í hópnum

Í Sandgerði er elsta björgunarskipið í flota Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein. Það er smíðað árið 1978 og á því aðeins fjögur ár í fimmtugt.

Gísli Jóns á Ísafirði er hins vegar yngstur, 29 ára með smíðaárið 1995.

Mastra jórinn nýi snertir íslenska grund.
Mastra jórinn nýi snertir íslenska grund. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Eftir því sem Landsbjörg greinir frá í tilkynningu sinni fara næstu daga fram skoðanir á nýkomna skipinu áður en haffærniskírteini verður gefið út auk þess sem ýmis tækjabúnaður verður settur í fleyið.

Björg verður til sýnis á ráðstefnunni Björgun 24 í Hörpu 11. til 13. október ásamt Jóhannesi Briem, þriðja björgunarskipinu í endurnýjunarverkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert