„Nú er alltaf verið að tala um jafnréttismál í samfélaginu og það er rosalega stórt jafnréttismál að það sé hægt að koma börnum inn í leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, í samtali við mbl.is, en fyrr í mánuðinum bauð bærinn 27 börnum sem fædd eru í september og fram í miðjan október 2023 pláss á ungbarnaleikskólanum Mánahvoli.
Fjallað var um biðlistamál leikskóla Garðabæjar í mars svo sem lesa má um handan tengilsins hér fyrir ofan og segir Almar að lengi hafi það verið markmið bæjarins að geta boðið tólf mánaða gömlum pláss.
„Það hefur oftast gengið vel og nú erum við ótrúlega ánægð með að segja frá því að við stöndum við þetta markmið þetta árið. Stærstur hluti innritunar fer fram að vori og börnin eru þá að koma inn í aðlögun með haustinu,“ segir bæjarstjóri.
Allt hafi þetta gengið vel auk þess sem vel hafi gengið að manna viðbótarstöður þar sem ekki hafi verið hörgull á húsnæði undir leikskóla, heldur á starfsfólki og þannig sé það enn þá. „Það er ekki sjálfgefið að börn eigi möguleika á að komast svona snemma að, við þekkjum það bara af umræðunni á Íslandi, en við gerðum breytingar í fyrra sem eru ástæðan fyrir því að þetta hefur gengið,“ útskýrir bæjarstjóri.
Hafi þær breytingar falist í því að sveigjanleiki hafi verið aukinn og farið í samtöl við foreldrasamfélagið. „Þá sögðum við að það hentaði okkur öllum, fjölskyldum og leikskólaumhverfinu, ef fólk næði að laga dvalartíma barnanna að eigin þörfum. Það þýðir að tvær vikur þurfi ekki að vera eins ef fólk nær þessari lögun að fjölskyldumynstrinu, til dæmis að vaktavinnu eða öðru slíku,“ heldur Almar áfram.
Auk þess segir hann að ráðist hafi verið í aðgerð sem ekki sé algeng í bænum, það er að stytta starfstíma leikskólanna, þann tíma dagsins sem börn geta dvalið þar. „Þetta var auðvitað umdeilt á þeim tíma en við sjáum hvað þetta hefur leitt af sér, þetta hefur leitt af sér aukið öryggi í starfseminni. Áður var það þannig að við vorum að loka einstökum deildum, jafnvel með mjög skömmum fyrirvara vegna þess að það var ekki mannskapur til að sinna börnunum, vegna veikinda eða annarrar fáliðunar,“ segir Almar frá.
Garðabær sé í þeirri stöðu, umfram flest sveitarfélögin í kring, að þar sé börnum að fjölga einna mest – ef ekki mest. „Þá reynir auðvitað á þennan mönnunarþátt, sem við fundum í fyrra, en það er gott að segja frá því núna að þessar aðgerðir sem við fórum í í mars skila sér nú í miklu betra jafnvægi. Það er minna álag á starfsfólkinu okkar og það er vinsælt að koma til vinnu – aðalatriðið er að okkur tókst að draga úr álagi,“ segir bæjarstjóri.
Bendir hann á viðverutíma barna í leikskólunum sem dæmi um vel heppnaða fléttu bæjarins. Nú dvelji 60 prósent barnanna þar skemur en 40 tíma á viku en sama hlutfall var aðeins 19% fyrir breytingarnar.
„Þetta hefur gefið okkur mikilvægt tækifæri til að tryggja að mönnun sé viðunandi, þannig að það að hafa samband með skömmum fyrirvara og tilkynna að barn geti ekki komið inn á einhverja deild, sem var orðið allt of algengt í fyrravetur, heyrir nú til algjörra undantekninga,“ segir Almar.
Þá komi bærinn nú til móts við fjölskyldur með því að bjóða afslátt af leikskólagjöldum treysti fólk sér til þess að fara niður í 36 tíma á viku með tvö börn, „þá er töluverður fjárhagslegur akkur í því fyrir fjölskyldurnar auk þess sem við komum til móts við sjónarmið um að fólk geti tekið frí fyrir sig og börnin, til dæmis kringum jól og áramót“.
Að lokum nefnir Almar svokallaðar biðlistagreiðslur, sem einnig hafa verið nefndar heimgreiðslur í umræðum foreldra, svo sem á samfélagsmiðlum. „Ef barn er orðið tólf mánaða en hefur ekki fengið leikskóladvöl borgum við fjölskyldunni ákveðna upphæð á mánuði, en það gerum við bara í þessu millibili. Samþykki fólk tilboð frá okkur og barn fær pláss, eða jafnvel ef fólk neitar plássi frá okkur – og er þá kannski að bíða eftir einhverjum tilteknum leikskóla – falla þessar greiðslur frá bænum niður,“ áréttar Almar.
Bendir hann sérstaklega á að þarna eigi það ekki við sem verið hefur í umræðunni, að fólk ákveði heldur að fá greiðslu frá sveitarfélagi en að setja barn eða börn á leikskóla. „Þessar greiðslur virka ekki þannig í Garðabæ, hér er litið á þetta sem táknrænan stuðning við fjölskyldur sem koma ekki börnunum að, miðað við okkar markmið, en þegar dvöl hefur komist á eða fólk afþakkar pláss sem við getum boðið, falla þessar greiðslur niður,“ segir Almar um misskilning sem ríkt hafi um greiðslurnar.
„Garðabær hefur alltaf gert vel við börn og haft gæði í leikskólastarfi. Við höfum náð að halda uppi áreiðanleika hjá leikskólum Garðabæjar í því að börn komi snemma inn í leikskóladvöl,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri að lokum.