Vildu hætta rekstri björgunarþyrlu

Upphafsár í rekstri björgunarþyrla á Íslandi voru mannskæð. Þrettán manns fórust í þyrluslysum fyrstu átta árin. Upp kom umræða um að hætta rekstri slíkrar þyrlu en þá tóku sig til fjórir af yfirmönnum Landhelgisgæslunnar, bæði til sjávar og flugs og gengu á fund ráðamanna. „Við fórum í sunnudagsfötin okkar, danska skó og slifsi og vorum fjórir og fórum í alla ráðherra á þeim tíma,“ segir Benóný Ásgrímsson fyrrum þyrluflugmaður hjá Lanhelgisgæslunni. Hann ásamt Páli Halldórssyni og tveimur skipherrum Gæslunnar og erindreka Slysavarnarfélagsins á þeim tíma ræddu málið við helstu ráðamenn með þeim árangri að hætt var við að hætta.

Þeir Páll og Benóný eru gestir Dagmála í dag en þeir hafa ásamt Júlíusi Ó. Einarssyni sent frá sér bókin Til taks, Þyrlusaga Landhelgisgæslunnar – fyrstu 40 árin. Þar er fjallað um þennan tíma þar sem hin mannskæðu og erfiðu upphafsár björgunarþyrlu gerðu það að verkum að ráðamenn hikuðu við að halda áfram. En ferðalag þeirra félaga hafði góð áhrif og pólitíkin hætti við að hætta við. Þyrlusveit Gæslunnar er í dag einn mikilvægasti hlekkur björgunaraðgerða á Íslandi.

Átta fórust fyrstu 13 árin

Páll Halldórsson viðurkennir að þyrlur á þessum upphafsárum hafi verið langt frá því fullkomnar og á engan hátt samanburðarhæfar við þau tæki sem síðar komu fram á sjónarsviðið. „Þyrlusaga Íslendinga var búin að vera hræðileg,“ bætir Benóný við. „Þegar við missum fjóra af okkar bestu vinum í hræðilegu þyrluslysi þá kom þessi umræða upp um áramótin 1983 til 84. Ég get nefnt sem dæmi að fyrstu átta árin mín sem ég er að byrja í þyrluflugi þá misstum við Íslendingar þrettán manns í þyrluslysum sem dóu. En síðustu 41 til 42 árin, að verða höfum við misst einn mann.“

Páll rifjar upp að mikið hafi verið um bilanir í fyrstu þyrlunum og hann upplifði í þrígang að drapst á mótor hjá honum í flugi.

Þeir félagar fara yfir sögu þyrlusveitarinnar í Dagmálum dagsins, og ýmislegt sem henni viðkemur. Þátturinn í heild sinni er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka