Aðgerðaáætlun enn óljós og sögð í mótun

Menntaþing. Skólayfirvöld stóðu fyrir fjölsóttri ráðstefnunni í gær.
Menntaþing. Skólayfirvöld stóðu fyrir fjölsóttri ráðstefnunni í gær. mbl.is/Karítas

Enn liggur ekki fyrir hvenær aðgerðaáætlun vegna vanda íslenska skólakerfisins verður fullmótuð.

Drög, sem mennta- og barnamálaráðherra kynnti á menntaþingi í gær eftir að hafa frestað því í sumar, eru um margt óljós. Yfirlýstar aðgerðir eru sumar lítt skilgreindar og jafnvel loftkenndar.

Tíu mánuðir eru liðnir frá því að niðurstöður PISA-könnunar ársins 2022 voru birtar, en þær vörpuðu enn skýrara ljósi á slæma stöðu íslenskra grunnskólabarna.

Frá pallborði á menntaþingi í gær.
Frá pallborði á menntaþingi í gær. mbl.is/Karítas

Búist við verri niðurstöðum

Næsta PISA-könnun verður lögð fyrir í vetur. Fólk innan skólakerfisins sem Morgunblaðið hefur rætt við býst við enn verri niðurstöðum úr því prófi.

Drög að 2. aðgerðaáætlun menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 voru kynnt á menntaþingi í gær fyrir um þúsund þinggestum.

Aðgerðirnar, sem eiga að koma til framkvæmda á árunum 2024 til 2027, eru tuttugu talsins og kennir þar ýmissa grasa.

Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason kveðst vilja bíða með að fullmóta aðgerðirnar þar til endurgjöf gesta þingsins liggur fyrir. Að sögn ráðherra mun það taka nokkrar vikur.

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins, á menntaþingi.
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins, á menntaþingi. mbl.is/Karítas

Ákvað að kynna ekki ítarlegri áætlun

„Við eigum efni sem er dýpra um hvern og einn punkt,“ sagði ráðherrann við lok menntaþings í gær en tók fram að ákveðið hefði verið að kynna ekki ítarlegri áætlun, í því skyni að halda uppi samráði.

Fjárskortur, agaleysi, kennaraskortur og Viðskiptaráð voru meðal þeirra atriða sem þinggestir nefndu sem stærstu vandamál íslensks menntakerfis. Ítrekað var vikið að ábyrgð foreldra í uppeldi barna í erindum þeirra sem tóku til máls.

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og formaður Kennarasambandsins tókust einnig á um mikilvægi samræmds mats við lok grunnskóla, til að sporna við ríkjandi ójafnræði barna eftir búsetu á landinu.

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka