Barnavernd Borgarbyggðar braut ítrekað gegn lögum

Borgarnes í Borgarbyggð.
Borgarnes í Borgarbyggð. mbl.is/Sigurður Bogi

Barnaverndarþjónusta Borgarbyggðar braut ítrekað gegn málsmeðferðarreglum barnaverndarlaga og skráning mála og varðveisla upplýsinga var þar verulega ábótavant.

Þetta kom fram við frumkvæðisathugun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) sem stofnað var til í mars á síðasta ári.

Var það gert vegna fjölda erinda sem borist höfðu stofnuninni.

„Um var að ræða alvarlegar ábendingar og kvartanir er sneru að gæðum þjónustunnar,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar, en athugunin var afmörkuð við þjónustu sem veitt var á tímabilinu 1. janúar 2022 til 1. apríl 2023.

„Niðurstöður Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sýna fram á töluverðan og alvarlegan misbrest við vinnslu mála hjá barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar á tímabilinu er athugunin náði til,“ segir í tilkynningunni.

Samskipti og samvinna ekki í samræmi við lög

Í fyrsta lagi sé ljóst að nokkuð hafi skort á skýra verkferla og leiðbeiningar til starfsfólks barnaverndarþjónustunnar. Í öðru lagi hafi skráningu mála og varðveislu upplýsinga skv. 39. gr. og 42. gr. barnaverndarlaga verið verulega ábótavant.

Í þriðja lagi skorti töluvert á að samskipti og samvinna við aðila máls hafi verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. 

Í fjórða lagi var við vinnslu mála ítrekað brotið gegn málsmeðferðarreglum laganna og átti það við öll stig málsmeðferðar, bæði hvað varðar meðferð á tilkynningum, ákvörðunum um skipun talsmanns, könnun mála, gerð áætlana um meðferð mála, framkvæmd vistanna utan heimilis og framkvæmd neyðarráðstafana.

Á grundvelli niðurstaðna athugunarinnar eru í skýrslunni sett fram tilmæli um úrbætur sem barnaverndarþjónustunni ber að vinna að innan sex mánaða.

Stöðugildum fjölgað og umbætur gerðar

Tekið er fram að margþættar umbætur hafi þegar verið gerðar á þjónustunni.

„Ljóst er af upplýsingum frá barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar að margþættar umbætur hafa nú þegar verið gerðar í samræmi við þau tilmæli um úrbætur sem lögð eru fram í skýrslunni. Meðal annars hafa verið gerðar úrbætur á innra eftirliti, verkferlum og leiðbeiningum til starfsfólks,“ segir í tilkynningu GEV.

Auk þess hafi stöðugildum starfsmanna verið fjölgað og aðgengi bætt að lögmanni með þekkingu á barnaverndarmálum.

„Við framkvæmd frumkvæðisathugunar GEV var viðhöfð góð samvinna við barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar sem hefur nú þegar fengið skýrsluna afhenta. GEV fagnar þeim úrbótum sem gerðar hafa verið og væntir þess að áfram verði unnið að úrbótum í samræmi við tilmæli sem sett eru fram í skýrslunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert