„Vonast til þess að Seðlabankinn sé þar líka“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Á morgun mun peningastefnunefnd Seðlabankans ákveða hvort …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Á morgun mun peningastefnunefnd Seðlabankans ákveða hvort stýrivextir verði áfram óbreyttir eða taki breytingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það bíða margir spenntir eftir tilkynningu frá peningastefnunefnd Seðlabankans en á morgun er vaxtaákvörðunardagur og þá kemur í ljós hvort stýrivextir verði óbreyttir eða verði lækkaðir. Stýrivextir bankans eru í 9,25% og hafa haldist óbreyttir í meira en eitt ár.

„Þetta verður nú bara að fara að hreyfast,“ segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra spurð um væntingar hennar varðandi stýrivextina.

Eru ekki öll skilyrði fyrir því að stýrivextir verði lækkaðir?

„Að minnsta kosti þau skilyrði sem hafa verið nefnd. Ábyrgir samningar, lækkandi verðbólga og ábyrg ríkisfjármál. Ég held að það séu allir að skila sínu og ég vonast til þess að Seðlabankinn sé þar líka,“ segir Svandís.

Bæði greiningardeild Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spá óbreyttum vöxtum en Íslandsbanki á von á vaxtalækkun í nóvember.

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,4% og hefur ekki mælst lægri síðan í desembermánuði 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert