Mennta- og barnamálaráðuneytið býður nú öllum sem vilja að veita endurgjöf á þeim fyrirhuguðu aðgerðum, sem ætlað er að bæta menntun á Íslandi og voru kynntar á menntaþingi skólayfirvalda á mánudag.
Aðgerðirnar eru sumar lítt skilgreindar og jafnvel loftkenndar, eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað um.
Samt sem áður mun þeim meðal annars vera ætlað að snúa skólakerfinu af þeim glapstigum sem svartar niðurstöður PISA hafa varpað ljósi á.
Í umfjölluninni voru tekin dæmi um tvær af þessum svokölluðu aðgerðum.
„Bættur námsárangur í alþjóðlegum samanburði,“ nefnist ein þeirra.
Markmið hennar: „Að námsárangur nemenda á grunnskólastigi standist alþjóðlegan samanburð.“
Önnur aðgerð: „Öflugir kennarar í skólum landsins.“ Markmiðið: „Að efla gæði kennslu.“
Þessum aðgerðum er ekki frekar lýst.
Þess ber þó að geta að um er að ræða drög, sem um þúsund gestum menntaþings var svo ætlað að ræða í hópum á einni klukkustund, og sem móta á nú með endurgjöf til hliðsjónar.
„Við eigum efni sem er dýpra um hvern og einn punkt,“ sagði ráðherrann Ásmundur Einar Daðason við lok ráðstefnunnar á mánudag.
Tók hann fram að ákveðið hefði verið að kynna ekki ítarlegri áætlun, í því skyni að halda uppi samráði.
Um tíu mánuðir eru liðnir frá því að niðurstöður PISA voru kynntar. Þar hrundi Ísland í samanburði við önnur lönd og féll ekkert skólakerfi jafn langt niður stigann og það íslenska.
Búist er við enn verri niðurstöðum í næstu PISA-könnun, sem lögð verður fyrir í vetur.
Ásmundur Einar hugðist kynna viðbrögð við niðurstöðum PISA í júní.
Hætt var við það fyrirvaralaust og kom í ljós eftir umleitanir mbl.is að kynningu viðbragðanna hefði verið frestað fram á haust.
Þau viðbrögð litu svo fyrst dagsins ljós á mánudag, í formi einhverra þeirra tuttugu „aðgerða“ sem allar eru nefndar orðrétt hér til hliðar.