Býður almenningi að tjá sig um „aðgerðirnar“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Karítas

Mennta- og barnamálaráðuneytið býður nú öllum sem vilja að veita endurgjöf á þeim fyrirhuguðu aðgerðum, sem ætlað er að bæta menntun á Íslandi og voru kynntar á menntaþingi skólayfirvalda á mánudag.

Aðgerðirnar eru sum­ar lítt skil­greind­ar og jafn­vel loft­kennd­ar, eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað um.

Samt sem áður mun þeim meðal annars vera ætlað að snúa skóla­kerf­inu af þeim glap­stig­um sem svart­ar niður­stöður PISA hafa varpað ljósi á.

„Öflug­ir kenn­ar­ar í skól­um lands­ins“

Í umfjölluninni voru tekin dæmi um tvær af þessum svokölluðu aðgerðum.

„Bætt­ur náms­ár­ang­ur í alþjóðleg­um sam­an­b­urði,“ nefnist ein þeirra.

Markmið hennar: „Að náms­ár­ang­ur nem­enda á grunn­skóla­stigi stand­ist alþjóðleg­an sam­an­b­urð.“

Önnur aðgerð: „Öflug­ir kenn­ar­ar í skól­um lands­ins.“ Mark­miðið: „Að efla gæði kennslu.“

Þessum aðgerðum er ekki frekar lýst.

Viðskiptaráð var á menntaþingi nefnt sem einn stærsti vandi mennta­kerf­is­ins. …
Viðskiptaráð var á menntaþingi nefnt sem einn stærsti vandi mennta­kerf­is­ins. Ráðið hef­ur talað fyr­ir sam­ræmdu náms­mati við lok grunn­skóla­göngu til að sporna við ríkj­andi ójafn­ræði barna eft­ir bú­setu þeirra. mbl.is/Karítas

Vildi ekki kynna ítarlegri áætlun

Þess ber þó að geta að um er að ræða drög, sem um þúsund gest­um menntaþings var svo ætlað að ræða í hóp­um á einni klukku­stund, og sem móta á nú með endurgjöf til hliðsjónar.

„Við eig­um efni sem er dýpra um hvern og einn punkt,“ sagði ráðherr­ann Ásmundur Einar Daðason við lok ráðstefnunnar á mánudag.

Tók hann fram að ákveðið hefði verið að kynna ekki ít­ar­legri áætl­un, í því skyni að halda uppi sam­ráði.

Hætti við kynninguna fyrirvaralaust

Um tíu mánuðir eru liðnir frá því að niður­stöður PISA voru kynnt­ar. Þar hrundi Ísland í sam­an­b­urði við önn­ur lönd og féll ekk­ert skóla­kerfi jafn langt niður stig­ann og það ís­lenska.

Búist er við enn verri niðurstöðum í næstu PISA-könnun, sem lögð verður fyrir í vetur.

Ásmund­ur Ein­ar hugðist kynna viðbrögð við niður­stöðum PISA í júní.

Hætt var við það fyr­ir­vara­laust og kom í ljós eft­ir um­leit­an­ir mbl.is að kynn­ingu viðbragðanna hefði verið frestað fram á haust.

Þau viðbrögð litu svo fyrst dags­ins ljós á mánudag, í formi ein­hverra þeirra tutt­ugu „aðgerða“ sem all­ar eru nefnd­ar orðrétt hér til hliðar.

Hér má sjá „aðgerðirnar“ í heild sinni.

Hér má veita endurgjöf á aðgerðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert