„Það virðist eitthvað hafa komið upp hjá Norðuráli sem verður þess valdandi að það kemur högg á kerfið og veldur því að það verður rafmagnslaust víða,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Rafmagnið fór af um hálfeittleytið í dag.
„Við erum að vinna í því í augnablikinu að ná utan um þetta,“ bætir Steinunn við.
Hún segist hafa heyrt af rafmagnsleysi á Húsavík, í Dalvík og á hluta af Vestfjörðum. Þá hefur mbl.is einnig heyrt af rafmagnsleysi á Siglufirði vegna þessa.
„Vonandi náum við hratt og örugglega utan um þetta. Við erum að vinna í að greina þetta.“
Á vef Rarik segir að rafmagnstruflanir séu víða í gangi í landskerfinu á Norðvesturlandi og Austurlandi.