Ákvörðunin byggð á heiðursmannasamkomulagi

Kosning í framkvæmdastjórn Pírata hefur dregið dilk á eftir sér.
Kosning í framkvæmdastjórn Pírata hefur dregið dilk á eftir sér. Ljósmynd/Píratar

Ákvörðun framkvæmdastjórnar Pírata um að veita varamönnum atkvæðisrétt er byggð á heiðursmannasamkomulagi.

Þetta segir Haukur Viðar Alfreðsson, stjórnarmaður í framkvæmdastjórn, í samtali við mbl.is.

Til­kynnt var um það eft­ir að kjöri í fram­kvæmda­stjórn lauk 7. sept­em­ber að Atli Stefán Ingvars­son, fyrr­ver­andi formaður stjórn­ar, hefði ein­ung­is náð inn sem varamaður og var hann því utan fimm manna aðal­stjórn­ar en var ann­ar tveggja vara­manna í stjórn.

Í síðustu viku breyttist það þó þegar framkvæmdastjórn ákvað að veita varamönnum atkvæðisrétt og þá var einnig tilkynnt að Hall­dór Auðar Svans­son væri ekki leng­ur formaður framkvæmdastjórn­ar, en hann tók við eft­ir kjör Pírata á aðalfundinum. Þór­hild­ur El­ín­ar­dótt­ir Magnús­dótt­ir tók í staðinn við sem formaður stjórnarinnar.

Formaðurinn formsatriði

Halldór Auðar var ekki hrifinn af að veita varamönnum atkvæðisrétt – er einhver ástæða fyrir því að hann er ekki lengur formaður?

„Almennt er þetta meira formsatriði um hver er formaðurinn. Þetta var bara þannig að Halldór og aðrir í stjórn ræddu saman og þetta var niðurstaðan. Hann yrði hefðbundinn stjórnarmaður og Þórhildur yrði formaðurinn.“

Halldór Auðar sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði, áður en hann hætti sem formaður, að honum hugnaðist ekki að veita varamönnum í stjórn atkvæðisrétt.

Má túlka sem viljayfirlýsingu

Ef lög Pírata eru rýnd kemur hvergi fram að hægt sé að veita varamönnum í stjórn atkvæðisrétt.

Samræmist þetta alveg lögum? Þyrfti ekki að boða til einhvers konar auka-aðalfundar þegar svona mál eru tekin fyrir?

„Ef þú myndir vilja breyta lögunum sjálfum, jú, þá þyrfti að fá einhvern meiri fund upp á að fá það samþykkt en þetta er í raun – ef þú ferð alveg í að rýna þetta og ætlar að fara með þetta fyrir hæstarétt – þá er þetta í raun viljayfirlýsing.

Við erum að segja að við ætlum að virða þessar reglur, heiðursmannasamkomulag. Að fyrirkomulagið verði á stjórnarfundum að varamenn fúnkeri alveg eins og aðalmenn. Þeir hafi sama atkvæðisrétt. Þeir eru vissulega ekki aðalmenn en þeir verða ekki virtir að vettugi á fundum,“ segir Haukur.

Ekki byggt á lagabreytingu

Hann segir að varamenn hafi ekki sömu réttindi samkvæmt lögum flokksins en að viljayfirlýsingin – um að veita varamönnum atkvæðisrétt – tryggi þó ábyrgð.

Þannig að ef stjórnarmenn gangi á bak orða sinna og veiti varamönnum ekki atkvæðisrétt muni grasrótin geta veitt aðhald.

„Þá væntanlega sendir það ekki góð skilaboð inn í grasrótina og er ekki vænlegt til árangurs til framtíðar fyrir okkur. Þannig að þetta er svona heiðursmannasamkomulag sem ætti að vera hægt að treysta í sjálfu sér en þetta er ekki eiginleg lagabreyting, nei,“ segir Haukur.

Reynt að gera úlfalda úr mýflugu

Hvað fór þarna fram? Halldór Auðar tekur þarna við störfum og lætur strax af. Okkur langar að fá innsýn í atburðarásina.

„Ég hef í sjálfu sér ekkert um það að segja nema að hann er enn þá í stjórninni og það var sameiginleg ákvörðun stjórnar að Þórhildur skyldi taka við en mér finnst í raun að það sé verið að reyna að gera úlfalda úr mýflugu í þessu máli. Við erum frekar létt og líbó á þessu í innra starfi Pírata.

Núna eru varamennirnir með atkvæðisrétt en það er í sjálfu sér mjög svipað og er í mörgum öðrum nefndum hjá Pírötum. Þetta er svona frekar mikið samstarf og reynt að komast að samhljóða niðurstöðum hvort sem er. Hvort það er formfast á blaði eða ekki hefur í raun engin áhrif á störf stjórnarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert