Hver er að verða síðastur að tryggja sér miða á góðgerðartónleika til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur sem lést í kjölfar árásar á Menningarnótt. Ríflega 90% miða hafa selst.
Allur ágóði rennur beint í minningarsjóð Bryndísar Klöru en verndari sjóðsins er Halla Tómasdóttir forseti Íslands.
Hefur Halla boðað komu sína á tónleikana og mun hún halda ávarp undir lok þeirra.
Góðgerðarráð nemendafélags Verslunarskóla Íslands stendur fyrir tónleikunum sem haldnir eru í Háskólabíói í kvöld.
Þegar þetta er skrifað eru örfáir miðar eftir og um að gera fyrir áhugasama að tryggja sér miða sem fyrst.
Birgir Karl Óskarsson, faðir Bryndísar Klöru, er afar þakklátur fyrir framtakið.
„Við fjölskyldan erum endalaust þakklát góðgerðarráðinu fyrir þetta glæsilega framtak,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Við erum líka rosalega þakklát tónlistarfólkinu sem kemur fram í kvöld og öllum þeim sem eru að hjálpa til við tónleikana úr ýmsum áttum. Okkur finnst þetta ómetanlegt til að heiðra minningu Bryndísar og styðja við mikilvægt málefni sem minningarsjóður Bryndísar mun sinna,“ segir Birgir.
Háskólabíó tekur 970 manns í sæti og yfir 90% miða hafa verið seldir nú þegar.
Á tónleikunum koma fram Friðrik Dór, GDRN, Aron Can, Bubbi Morthens og Páll Óskar. Þá verður Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir kynnir á tónleikunum.