„Afar skemmtilegt verkefni“

Matseðill Manchester United í flugi Loftleiða frá Manchester til Porto.
Matseðill Manchester United í flugi Loftleiða frá Manchester til Porto. Ljósmynd/Aðsend

„Það er alveg óhætt að segja að þetta sé afar skemmtilegt verkefni,“ segir Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða, í samtali við mbl.is en Loftleiðir, sem er leiguflugshluti Icelandair, sér um flug enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United í ferðum félagsins milli Manchester og Porto.

Flugvélin sem flaug með Manchester United til Porto í fyrradag er búin 80 sætum í viðskiptafarrými en í dag ferðast United-liðið með flugvélinni aftur til Manchester. 

Manchester United mætti Porto í Evrópudeildinni í gærkvöld þar sem liðin skildu jöfn, 3:3, en það er skammt stórra högga á milli því United á erfiðan útleik fram undan á sunnudaginn þegar liðið sækir Aston Villa heim.

Að sögn Árna eru Íslendingar í áhöfn. Hann segist hafa heyrt í áhöfninni sem sagði að ferðin hafi gengið vel og almenn ánægja hafi verið með hana.

Flugvélin sem flýgur með Manchester Uniteder búin 80 sætum í …
Flugvélin sem flýgur með Manchester Uniteder búin 80 sætum í viðskiptafarrými. Ljósmynd/Aðsend

Loftleiðir er með þrjár Boing 757 VIP-vélar í rekstri, tvær áttíu sæta og eina fimmtíu sæta, og eru þær að mestu bókaðar fyrir erlenda ferðaheildsala sem bjóða upp á heimsferðir. Á þessu ári hafa Loftleiðir lagt meiri áherslu á að bjóða vélarnar í styttri verkefni á þeim tímabilum sem þær eru ekki bókaðar í heimsferðir.

Vikuferð með RB Leipzig til Bandaríkjanna

Að sögn Árna hafa Loftleiðir kynnt þessa þjónustu fyrir mörgum af stærri knattspyrnufélögum í Evrópu og síðastliðið sumar flaug þýska liðið RB Leipzig með vél frá Loftleiðum í æfingaferð til Bandaríkjanna.

„Það hefur staðið yfir markaðssetning á þessum flugum og við fengum fyrsta verkefnið í sumar þegar við fórum með RB Leipzig í vikuferð til Bandaríkjanna. Það heppnaðist mjög vel og svo fengum við þetta verkefni með Manchester United. Það verður pottþétt framhald á þessu enda spyrst það fljótt út þegar lið á borð við Manchester United ferðast með okkur,“ segir Árni.

Leikmenn RB Leipzig í flugi með Loftleiðum til Bandaríkjanna í …
Leikmenn RB Leipzig í flugi með Loftleiðum til Bandaríkjanna í sumar. Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert