Kallar sig ekki femínista

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir langt síðan hún varð þess fyrst vör að „meginstraums-femínisminn“ hefði ekki áhuga á baráttu verka- og láglaunakvenna.

Sólveig Anna var gestur Dagmála á þriðjudag.

„Það hefur ekkert gerst sem hefur fengið mig til að skipta um skoðun. Þvert á móti tel ég að meginstraums-femínisminn á Íslandi sé og hafi verið gríðarlega áhugalaus um stöðu verka- og láglaunakvenna.“

Sökuð um karllæga átakasækni

„Við höfum ekki notið stuðnings í okkar fjölmörgu kjaradeilum sem hafa iðulega snúist um kjör og hagsmuni kvenna og hafa iðulega, og því sem næst ávallt, verið leiddar af konum, fjölmennir kvennahópar í samninganefnd, í stjórn Eflingar og svo mætti áfram telja, þá höfum við ekki dottið inn á neinn svona radar, fókusinn hefur aldrei beinst að okkur,“ segir hún.

Það hafi oft birst með mjög kostulegum hætti.

„Sóley Tómasdóttir meðal annars ákvað í einni stærstu og erfiðustu kjaradeilu síðustu ára og áratuga, þegar við vorum í deilunum 2023 við Samtök atvinnulífsins og við embætti ríkissáttasemjara og vorum fyrir dómstólum með þung og erfið mál, að skrifa grein sem snerist ekki um það að það ætti að styðja við Eflingu, vegna þess að það væri þá hægt að halda áfram að leiðrétta kjör láglaunakvenna, heldur þvert á móti að það þyrfti alls ekki að styðja Eflingu vegna þess að ég hefði gerst sek um eitthvað sem mig minnir að hún hafi kallað karllæga átakasækni, sem ég veit svo sem ekkert hvað er og kann ekki að útskýra.“

Sólveig Anna formaður Eflingar í broddi fylkingar við mótmæli.
Sólveig Anna formaður Eflingar í broddi fylkingar við mótmæli. Eggert Jóhannesson

Efling sniðgengin í riti ASÍ

Um það leyti hafi Alþýðusamband Íslands gefið út rit helgað baráttu kvenna.

„Í þessu riti var ekki minnst einu orði á Eflingu, og því var haldið fram að samninganefndir félaganna almennt minntu á eitthvað frá sjötta eða sjöunda áratug síðustu aldar.

Ef þú skoðar samninganefnd Eflingar held ég að þú þurfir að vera bara í einhverjum öðrum heimi til þess að telja að sú mynd sem þar sést minni eitthvað á einhverja áratugi síðustu aldar á Íslandi,“ segir Sólveig Anna.

Hún segist ekki kunna skýringar á áhugaleysinu.

„Hvort sem það er vegna minnar karlægu átakasækni eða stéttskiptingarinnar eða einhverrar „internaliseraðrar“ andúðar á ómenntuðum láglaunakonum, ég veit það ekki.

Við höfum allavega aldrei fundið fyrir þessum heitu, góðu sólargeislum meginstraums-femínismans, aldrei.“

Hugtakið „femínisti“ henti ekki lengur

Sólveig Anna kallar sig ekki femínista, heldur kvenréttindakonu.

„Sökum allra þessara mörgu strauma og alls þess sem hægt er að tengja við þetta orð, þá einfaldlega hentar það mér ekki lengur.

Ég gengst stolt við því að vera kvenréttindakona, margar af mínum stærstu hetjum í mannkynssögunni eru kvenréttindakonur og ég hef lesið mér mikið til um baráttu þeirra og lært mikið af þeim, þannig að ég ætla að bera það heiti með stolti en kalla mig ekki femínista.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert