Vongóður um endurreisn

Í þessu húsnæði við höfnina á Akranesi var Skaginn 3X …
Í þessu húsnæði við höfnina á Akranesi var Skaginn 3X með starfsemi sína. mbl.is/Sigurður Bogi

„Nú eru menn að leggjast á árarnar til að reyna sitt ýtrasta til að bjarga starfseminni sem var í Skaganum 3X hér á Akranesi. Það er mikilvægt að þessi gjörningur hafi farið fram og fasteignirnar komnar á þessa hönd, sem auðveldar síðan áframhaldið,“ segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi, í samtali við Morgunblaðið.

Hann var spurður álits á því að Íslandsbanki leysti til sín það atvinnuhúsnæði í eigu Grenja sem hýsti starfsemi Skagans 3X á Akranesi, en fyrirtækið fór í þrot í byrjun júlí sl.

„Ég er vongóður um að nú takist að mynda góðan eigendahóp um endurreisn á starfsemi Skagans 3X, þótt sú endurreisn fari hægar af stað en vonast var til í sumar af því að svo langt er um liðið frá því fyrirtækið fór í þrot. Við bindum miklar vonir við þessa nýju stöðu í málinu,“ segir Haraldur og kveðst vita til þess að hópur fjárfesta sé að tala saman. Vonir standi til að málið geti gengið upp þótt einhver ljón séu enn á veginum. Aðalmálið fyrir Akraneskaupstað sé að fyrirtækið verði í heild sinni í bænum og að sú starfsemi sem var í Skaganum 3X verði ekki leyst upp.

„Síðan verður að koma í ljós hvernig markaðurinn er fyrir tækjabúnað sem fyrirtækið framleiðir og hvernig gengur að keyra fyrirtækið upp í fyrri styrk og rekstur. Meginmálið fyrir Akraneskaupstað er að fyrirtækið verði ekki slitið sundur, ekki flutt frá Akranesi og að þarna verði áfram rótin af gamla Skaganum sem ný og gróskumikil starfsemi getur sprottið upp af,“ segir Haraldur.

„Þessi framgangur í málinu er ánægjuleg tíðindi,“ segir hann.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert