Að feika rússneskan hreim

Vigús Gunnarsson er sá eini á landinu sem starfar í …
Vigús Gunnarsson er sá eini á landinu sem starfar í fullu starfi við leikaraskipan. mbl.is/Ásdís

Bak við hverja kvikmynd eða sjónvarpsþátt liggur ómæld vinna áður en áhorfendur fá að sjá afraksturinn. Miklu máli skiptir að ráða réttu leikarana í hlutverkin en sú leit getur verið vandasöm. Vigfús Þormar Gunnarsson er líklega sá Íslendingur sem veit mest um þau mál, en hann starfar við leikaraskipan hjá fyrirtæki sínu Doorway Casting. Vigfús settist niður með blaðamanni til að segja frá starfi sínu og þar var ýmislegt sem kom á óvart.

Eldskírn á setti

Leiklistarbakterían blundaði í Vigfúsi frá unga aldri. Honum þótti gaman að vera með í leikritum í barnaskóla og kunni ágætlega við athyglina. En íþróttir áttu hug hans allan lengi framan af en Vigfús spilaði handbolta með Haukum. Hann segir að sem barn og unglingur hafi hann upplifað sig sem meiri íþróttamann en leikara, en eftir veikindi og meiðsl lagði hann handboltaskóna á hilluna.

„Ég þurfti svolítið að hrista af mér íþróttamanninn og finna mig sem leikara,“ segir Vigfús sem fór þó ekki beinustu leið í leiklist því ungi maðurinn keyrði sendibíl í nokkur ár þar til hann ákvað að skella sér í leiklistarnám í Kvikmyndaskóla Íslands.

„Fljótlega eftir að ég kláraði skólann fékk ég lítið hlutverk í Vonarstræti, en ég hafði áður leikið í stuttmynd hjá Baldvini Z. Ég var að fara að skrifa undir ráðningarsamning hjá Ingvari Þórðarsyni og Júlla Kemp sem leikari þegar þeir spurðu mig hvað ég væri að fara að gera. Ég sagðist bara vera að leita mér að vinnu. Þeir buðu mér þá að vera „runner“ við Vonarstræti, sem var svolítið stórt skref fyrir mig þá,“ segir Vigfús og útskýrir að „runner“ sé eins konar „alltmúlígmann“ á setti.

„Eftir þetta verkefni var mér strax boðið starf sem annar aðstoðarleikstjóri í myndinni Sumarbörnum. Ég ákvað að stökkva á tækifærið og var þetta mikil eldskírn. Eftir þetta fannst mér einhvern veginn mér allir vegir færir í sambandi við að vinna á setti. Ég hélt svo áfram sem annar aðstoðarleikstjóri og var aðeins farinn að verða aðstoðarleikstjóri, sem er eins konar verkstjóri á setti svo leikstjórinn geti verið huggulegur á bak við mónitor,“ segir Vigfús.

„Það var svo í öðru verkefni sem annar aðstoðarmaður leikstjóra hjá Baldvini Z í Rétti III að hann spyr mig hvort ég geti hjálpað sér við „casting“,“ segir Vigfús, en besta orðið yfir það er líklega leikaraskipan.

„Og þannig byrjaði það.“

Sneri sér að leikaraskipan

Eitt leiddi af öðru og starfið vatt upp á sig og Vigfús var sífellt beðinn að taka að sér fleiri verkefni tengd leikaraskipan.

„Eftir Rétt III fór ég að gera meira og meira af þessu. Ég veit ekki hvort ég var réttur maður, en ég var alla vega á réttum stað á réttum tíma,“ segir Vigfús og segir kröfurnar í kvikmyndagerð hafa aukist með árunum og margt hafi breyst, en leikaraskipan var oft áður í höndum leikstjóra eða framleiðanda. Í dag er staðan önnur.

„Það er allt of mikil vinna fyrir leikstjóra að hringja í alla, taka fundi með öllum deildum og taka alla í prufur. Á endanum var orðið mikið að gera í leikaraskipan og ég var líka mikið að vinna á setti. Á þessum tíma vorum við konan mín með tvo litla stráka og það var orðið ansi mikið að gera. Ég ákvað þá að taka sénsinn og hætta að vinna á setti og snúa mér alfarið að leikaraskipan, og það hefur heldur betur gengið eftir,“ segir Vigfús, sem árið 2018 stofnaði fyrirtækið Doorway Casting sem sérhæfir sig í leikaraskipan í kvikmyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar.

„Ég er ekki sá fyrsti sem sinnir þessu starfi en ég er sannarlega sá fyrsti sem vinnur við þetta í fullri vinnu,“ segir Vigfús.

Hundrað sérvaldir aukaleikarar

„Núna erum við með mynd sem heitir Reykjavík og er um leiðtogafundinn í Höfða árið 1986,“ segir Vigfús, en þar leikstýrir Michael Russell Gunn.

„Þar eru kröfunar við leikaraskipan enn þá meiri en oft því þetta er períóda og allir aukaleikarar þurfa að vera sérvaldir og samþykktir af leikstjóra. Við þurfum að koma með myndir og það er verið að bóka mátanir og taka prufur fyrir minnstu hlutverk. Ég er í samstarfi við þrjá aðra „casting directora“ erlendis og við fundum reglulega, þannig að þetta er rosaleg vinna,“ segir Vigfús og segir að í kvikmyndinni séu yfir hundrað sérvaldir aukaleikarar, auk tíu aðalleikara.

Augu heimsins hvíldu á Íslandi þegar Mikhail Gorbatsjov og Ronald …
Augu heimsins hvíldu á Íslandi þegar Mikhail Gorbatsjov og Ronald Reagan funduðu í Höfða árið 1986. Nú er verið að gera bíómyndina Reykjavík um leiðtogafundinn en Doorway Casting sá um leikaraskipan. mbl.is/Rax

„Ég hef verið að prufa marga leikara og þarf að átta mig á hverjir geta talað með amerískum hreim og hverjir geta feikað rússneskan hreim og auk þess þarf útlitið að passa. Svo þarf að passa að ráða ekki leikara sem eru kannski uppteknir þegar kemur að tökum. Það er margt sem þarf að huga að,“ segir hann og segir nokkra Íslendinga vera með nokkuð stór hlutverk í myndinni, en framleiðslufyrirtækið úti vildi ráða sem flesta Íslendinga.

„Þeir hafa verið mjög ánægðir með leikarana, enda fer gott orð af íslenskum leikurum,“ segir Vigfús, en tökur munu standa yfir frá miðjum október til miðs nóvember.

Síðasta hlutverkið leikið

Er þetta ekki skemmtilegt starf?

„Jú, jú, að öllu jöfnu, en stundum horfi ég út um gluggann og óska þess að ég væri að moka skurð. En það er þannig með alla vinnu; það er ekki alltaf skemmtilegt. Hér er mikið áreiti og ég fæ mikið af skilaboðum, jafnvel um helgar og á kvöldin. Ég vinn sennilega allt of mikið.“

Ertu ekkert að velja sjálfan þig í geggjuð hlutverk?

„Góð spurning,“ segir hann og brosir.

Svörtu sandar 2 fer í loftið nú um helgina. Vigfús …
Svörtu sandar 2 fer í loftið nú um helgina. Vigfús leikur í þáttunum en segir það líklega sitt síðasta hlutverk.

„Ég hef leikið í Svörtum söndum, sem var eiginlega smá grín því Baldvini fannst fyndið að ráða mig. Mér finnst gaman að koma á sett og hitta gömlu félagana sem ég var að vinna með áður fyrr. Svo í Svörtum söndum II var búið að stækka hlutverkið mitt töluvert,“ segir hann, en sýningar á seríunni hefjast 6. október á Stöð 2. 

„Þetta var mjög gaman og yndislegt að fá að vera með fólkinu því maður er svo einangraður hér á skrifstofunni. Þegar ég kláraði tökuna á síðasta deginum sagði ég við Baldvin að þetta hlutverk væri það síðasta sem ég léki. En svo sjáum við til,“ segir hann kíminn.

Allir geta leikið

Hvað er á döfinni?

„Ég er kominn með tvær íslenskar sjónvarpsseríur sem fara í tökur í febrúar og mars og er byrjaður að vinna í þeim. Svo er hellingsvinna fram undan varðandi Höfða-myndina. Eins erum við að klára að vinna í sjónvarps­seríunni Reykjavík Fusion sem er í tökum núna og sömuleiðis erum við að vinna við Eldana í leikstjórn Uglu Hauksdóttur.“

Vigfús segir nóg til af góðum leikurum á Íslandi, en Doorway er komið með stóran gagnagrunn.

„Mér finnst gaman að hafa úr nógu að moða og gefa öðrum séns en bara þeim þekktu. Sumir telja að þetta sé klíka og að sömu leikararnir fái öll hlutverkin. Það gerist alltaf af og til að nýtt fólk fær séns.“

Blaðamaður kemur því að að hann hafi alltaf dreymt um að leika í kvikmynd.

„Þá ertu á réttum stað. Þú þarft að passa þig hvað þú segir því ég mun pottþétt heyra í þér!“ segir Vigfús og hlær.

Aldrei er nóg af fólki í gagnagrunni hjá Doorway og vill Vigfús koma því til skila að fólk má gjarnan skrá sig á heimasíðu Doorway.is. Það er aldrei að vita hvort frægðin bíður handan við hornið.

„Ég segi að allir geti leikið; þeir þurfa bara að vera rétt „kastaðir“. Ég stend alveg við það.“

Ítarlegt viðtal er við Vigfús í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka