Ekki dæmigerð dönsk kona

Trine hefur notið þess mjög að vera á Íslandi. Hún …
Trine hefur notið þess mjög að vera á Íslandi. Hún er hrifin af sundlaugum, heitum laugum, norðurljósum og Esjunni.

Allir dagar eru langir hjá dönsku leikkonunni Trine Dyrholm sem nú vinnur hér hörðum höndum að því að leika danska konu hjá Benedikt Erlingssyni leikstjóra og handritshöfundi. Eini tíminn sem var laus til spjalls var að kvöldi til og hittumst við Trine á hóteli í miðbænum eftir langan vinnudag á setti. Trine er vel þekkt í heimalandi sínu og víðar, enda hefur hún leikið í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum alveg frá árinu 1990 þegar hún var aðeins átján ára. Íslendingar þekkja hana eflaust best úr þáttunum Erfingjunum og kvikmyndum á borð við Dronningen og Margaret: Queen of the North, en þar lék hún á móti Halldóru Geirharðsdóttur. Trine hafði aðeins einu sinni áður komið til Íslands, fyrir þremur árum á RIFF. Þá stoppaði hún aðeins fjóra daga, en nú hefur Trine búið hér í þrjá mánuði.

„Ég hef alltaf verið heilluð af Íslandi. Ég hef ekki mikinn frítíma en hef farið Gullna hringinn, í Hvammsvík nokkrum sinnum og í heita lækinn í Reykjadal,“ segir hún.

„Ég hef þurft að læra smávegis íslensku, því danska konan er svo villtur karakter sem lærir tungumál,“ segir Trine og segist hafa fengið hjálp við lærdóminn, en þykir málið afar erfitt.

„Það er algjörlega ómögulegt að læra íslensku!“

Sagði já alveg um leið

Við ræðum persónu Trine í Dönsku konunni.

„Ég leik danska konu sem vann fyrir dönsku leyniþjónustuna en ákveður að flytja til Íslands til að slaka á. Ég veit ekki alveg hvað ég má segja mikið,“ segir Trine og brosir.

Spurð hvort þættirnir séu gamanþættir svarar hún:

„Ég myndi segja að þeir væru í anda Benedikts. Það er mikill húmor í þáttunum en með þyngri undirtóni. Hann er svo áhugaverður listamaður og fjallar gjarnan í list sinni um mikilvæg málefni en gerir það á frumlegan hátt og með húmor. Þetta er mjög sérstakur þáttur sem ég hef beðið eftir í mörg ár,“ segir Trine en henni var boðið hlutverkið fyrir fjórum árum.

Trine segir Benedikt alveg einstakan listamann.
Trine segir Benedikt alveg einstakan listamann. mbl.is/Ásdís

„Ég las ókláraða handritið og hafði séð myndir Benedikts þannig að ég sagði já alveg um leið. Ég hef aldrei áður fengið annað eins tilboð. Þetta er risastórt og virkilega krefjandi. Karakterinn minn er svo marglaga að það er erfitt að lýsa honum. Hún er danska konan,“ segir hún.

„Hún getur verið ansi öfgafull, en hún á sér flókna fortíð og hefur upplifað stríð,“ segir hún.
„Hún er ekki dæmigerð dönsk kona,“ segir Trine.

Að fyllast eldmóði saman

Trine segir samstarfið við íslensku leikarana og annað starfsfólk á setti mjög gott og gjöfult.

„Ég hafði hitt Dóru en við unnum saman í The Queen of the North. Ég þekkti ekki alla leikarana en suma hafði ég séð í myndum eða þáttum. Ég hef haft mikla ánægju af því að vinna með öllu þessu fólki og í raun á Benedikt heiðurinn af þessu öllu, því handritið, sem hann skrifaði með Ólafi (Egilssyni), er svo gott og tónninn í því svo sérstakur. Benedikt er svo örlát manneskja og opinn fyrir fólki. Maður fyllist innblæstri að vinna með honum og það er skemmtilegt. Við erum önnum kafin því við erum að taka upp sex þætti á þremur mánuðum og ég er nánast í hverri einustu senu. Ég finn það núna þegar fer að síga á seinni hlutann að ég er að verða svolítið þreytt en fram að þessu hefur þetta verið ótrúlega skemmtilegt og galið og villt,“ segir hún.

„Þegar maður er kominn á minn aldur, rétt yfir fimmtugt, er það heiður að fá enn svona krefjandi og flott hlutverk. Ég var svo spennt að koma þegar tökur fóru loks í gang eftir að fjármagn fannst, því ég hafði tekið frá tíma í mörg ár í röð fyrir þetta hlutverk. Svo daginn fyrir tökur þyrmdi yfir mig og ég hugsaði: „Get ég þetta?“ Ég hef alltaf haft það fyrir mottó að þora og henda mér út í hluti þar sem ríkir enn einhver óvissa, en þarna daginn áður horfði ég á bunkann af texta, að hluta til á íslensku, og fannst þetta svakalega yfirþyrmandi,“ segir Trine.

Það var ys og þys á setti þegar taka átti …
Það var ys og þys á setti þegar taka átti upp senu í Dönsku konunni.

„Svo eftir fyrsta tökudaginn fór þetta að flæða. Það hafa komið erfiðir dagar og svo auðveldari dagar, en ég er svo glöð að ég lét slag standa,“ segir hún.

„Handritið, eða efni þáttarins, skiptir miklu máli en fólkið sem maður vinnur með skiptir enn meira máli. Þetta snýst ekki um að hafa gaman, heldur að þora og fyllast eldmóði saman. Ég þarf að eiga mína „gúlag-félaga“ til að við getum skemmt okkur yfir efninu. Að leika í þessu núna er líf mitt og það er mjög mikilvægt að nýta tímann vel.“

Eru fá góð hlutverk fyrir konur yfir fimmtugt?

„Já, það er enn svoleiðis, en ég get þó sagt að ég hef fengið áhugaverðustu hlutverkin eftir fertugt,“ segir Trine og segir sífellt fleiri bitastæð hlutverk nú bjóðast konum.

„Það er nú að komast í tísku að vera kona,“ segir hún og brosir.

Alveg sama um góðan leik

Þú hefur sagt að þú reynir oft að koma sjálfri þér á óvart þegar þú leikur hlutverk. Er það eitthvað sem þú gerir alltaf?

„Þetta er mín nálgun í leiklist og í raun mín trú í lífinu; að við eigum að vera í núinu eins mikið og hægt er. Við erum alltaf að skapa augnablik. Ég fæ auðvitað handrit og í kringum mig er allt hið tæknilega á settinu, en ég er að skapa augnablikin með hinum leikurunum. Mitt hlutverk er að skapa augnablik, hér og nú,“ segir hún.

„Ef hlutverkin eru tilfinningaþrungin ¬leyfist manni meira að þora; að kanna viðbrögð, því maður veit ekki alltaf hvaða tilfinningar vakna í senu. Þetta fer að sjálfsögðu eftir efninu, en þannig nálgast ég hlutverk. Þegar einhver kallar „action“ þá hugsa ég alltaf að nú viti ég ekki hvað muni gerast. Ég fer forvitin inn í augnablikið,“ segir hún.

„Ég reyni að taka pressuna af mér að þurfa að vera góð leikkona; mér er alveg sama um góðan leik. Ég reyni að vera í augnablikinu og bregðast við og þess vegna er svo mikilvægt að leika á móti góðum leikurum,“ segir hún.

Trine Dyrholm hefur búið á Íslandi nú í þrjá mánuði …
Trine Dyrholm hefur búið á Íslandi nú í þrjá mánuði en hún er við tökur á sjónvarpsþættinum Danskan konan, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. mbl.is/Ásdís

„Ég hef lært það í gegnum árin að vera ekki með plan. Það er einhver annar með planið; leikstjórinn og kvikmyndatökumaðurinn. Ég ákveð ekki nákvæmlega hvað ég ætla að gera. Þá kemst ég í samband við hið óþekkta og upplifi stað á milli meðvitundar og undirmeðvitundar.“

Mun sakna fjallanna

Dvöl Trine á Íslandi fer senn að ljúka og eftir frí og kvikmyndahátíðir sem hún hyggst sækja fer hún heim til Kaupmannahafnar, en þar fer hún ferða sinna gjarnan á hjóli eins og Dana er siður.

„Það er eina leiðin til að komast leiðar sinnar í Kaupmannahöfn. Hér finnst mér gott að labba, en ég bý miðsvæðis. Ég er farin að þekkja hér fólk, leikara sem ég kynntist núna og síðast þegar ég var hérna. Ég á hér smávegis félagslíf en hef ekki mikinn tíma því ég þarf að læra og muna mikinn texta. Og svo er mikið af æfingum,“ segir Trine og segist njóta þess mjög að vera hér.

„Ég er búin að sjá norðurljósin tvisvar frá svölunum mínum og var alveg heilluð. Þau voru fullkomin! Svo sá ég eldgosið, úr smá fjarska. En nóg var bara að horfa á það frá sjávarsíðunni; það var svo undurfallegt,“ segir hún.

„Hér á þessari eldfjallaeyju er einhvern veginn sérstakt samband manns við náttúru. Ég finn það líka á fólki og ég finn það líka aðeins sjálf. Þetta er ekki auðvelt land að búa í; hér er myrkur á veturna og náttúruöflin óblíð. Það eru svo mikil forréttindi að fá að prófa að vinna erlendis og búa þar í einhverja mánuði því þá kynnist maður daglegu lífi en er ekki bara túristi. Ég elska að fara í Vesturbæjarlaugina á kvöldin og fylgjast með fjölskyldum sem eru þar með börnin sín sem fara svo beint í náttfötin eftir sund og gaman er að fylgjast með unga fólkinu spjalla í pottunum. Þetta er yndisleg menning og maður hefur svo gott af því að fara í heita og kalda vatnið á víxl. Ég hef einnig prófað sjósund, þótt ég sé ekki beint að synda, en ég dýfi mér út í. Í Hvammsvík er líka gott að bregða sér út í sjó. Náttúran þar í kring er alveg klikkuð! Fjöllin allt í kring. Ég elska fjöll, en við eigum engin fjöll. Ég á eftir að sakna þeirra mikið! Á hverjum morgni fer ég út á svalir með kaffið mitt og heilsa Esjunni, sem er aldrei eins,“ segir hún.

„Hún er svo falleg.“

Ítarlegt viðtal er við Trine í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert