Ný sjónvarpsauglýsing fyrir Bleiku slaufuna 2024 var frumsýnd í gærkvöldi. Boðskapur Bleiku slaufunnar í ár er „Þú breytir öllu.”
Vísar boðskapurinn til þess hve mikilvægur stuðningur aðstandenda og samfélagsins alls sé í baráttunni við krabbamein.
Í auglýsingunni má sjá tímaskeið í lífi konu sem greinist með krabbamein og hvernig hennar nánasta fólk styður hana með stórum og litlum gjörðum í gegnum erfiða og krefjandi reynslu.
Hlutverk aðstandenda getur skipt sköpum fyrir batahorfur og lífsgæði þeirra sem glíma við krabbamein.
Á sama tíma getur hlutverk aðstandandans verið afar krefjandi. Með yfirskriftinni vill Krabbameinsfélagið vekja athygli á því að allur stuðningur, stór eða smár, gerir gagn.
Sala á Bleiku slaufunni stendur nú yfir og allur ágóði sölunnar rennur til rannsókna-, fræðslu- og stuðningsstarfs Krabbameinsfélagsins. Sigríður Soffía Níelsdóttir, danshöfundur og hönnuður, hannaði Bleiku slaufuna í ár.
Jóna Guðrún Jónsdóttir, leikkona og aðjúnkt í leiklist hjá Háskóla Íslands, fer með aðalhlutverkið í auglýsingunni.