Á næsta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar, sem haldinn verður á þriðjudaginn, verður lögð fram tillaga um vantraust á Þorgeir Pálsson, oddvita Strandabyggðar.
Það er Matthías Sævar Lýðsson úr lista A-lista Almennra borgara sem leggur vantrauststillöguna fram en Þorgeir er oddviti T-lista Strandabandalagsins.
„Oddviti hefur ítrekað komið fram með ásakanir á hendur íbúa í sveitarfélaginu og fyrrverandi sveitarstjórnarmanni um að hann eða stofnanir á hans vegum hafi tekið sér á sjöunda tug milljóna úr sveitarsjóði og það er næg ástæða þess að ég legg þessa vantrauststillögu fram,“ segir Matthías Sævar við mbl.is.
Endurskoðunarfyrirtækið KPMG var fengið til að gera úttekt á greiðslum til Jóns Jónssonar, fyrrverandi nefndarmanns í hreppnefnd Strandabyggðar, en Jón fékk fyrr á árinu samþykkta kröfu sína um að rannsókn yrði gerð á þungum sökum sem á hann voru bornar af starfsmönnum sveitarfélagsins. Var hann meðal annars sakaður um fjárdrátt.
Jón, sem er þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, sagði við mbl.is í sumar að lykilstarfsmenn sveitarfélagsins hafi sakað sig um um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili sveitarfélagsins.
Í niðurstöðu úttektar KPMG segir:
„Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010-2014 og 2019-200 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.“
„Oddvitinn hefur ítrekað ummæli sín þrátt fyrir niðurstöðu endurskoðunarfyrirtækisins og það er ekki hægt að búa við það. Hann lætur sér ekki segjast og ég legg því fram vantraustið og vil láta á það reyna hjá meirihluta og minnihluta sveitarstjórnarinnar hvort fólki finnist það bara í lagi samfélagsins vegna að maður í þessari stöðu haldi uppteknum hætti. Það er mitt mat að það sé ekki unað við það,“ segir Matthías.
Hann segist ekki hafa átt annarra kosta völ en leggja vantrauststillöguna fram en hvort hún verði samþykkt sé alveg óljóst.