Svandís muni pína Sjálfstæðisflokkinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason telja Svandísi Svavarsdóttur munu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason telja Svandísi Svavarsdóttur munu gera Sjálfstæðismönnum lífið leitt út kjörtímabilið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður og þingflokksformaður Miðflokksins segja ályktun Vinstri grænna vera til merkis um að VG vilji koma samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn í bobba í aðdraganda þingkosninga.

Álykt­un­in kveður á um að stjórn­ar­sam­starfið sé að nálg­ast leiðarlok og að stefna eigi að þing­kosn­ing­um í vor, frek­ar en haustið 2025.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir ríkisstjórnarslit með þessum hætti óhefðbundin fyrir íslenska pólitík og ekki til marks um góð og eðlileg vinnubrögð, heldur frekar hve stórundarlegt stjórnarsamstarfið sé orðið.

Spáðu fyrir um útspil Svandísar

Sigmundur segir að hann og Miðflokksmenn hafi spáð fyrir um þetta útspil í Sjónvarpslausum fimmtudögum, hlaðvarpi flokksins. Svandís hafi verið gestur í hundraðasta þætti hlaðvarpsins og þeir útskýrt sína spá fyrir henni þar og það hafi raunar gengið eftir.

Með því að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu með nokkurra mánaða fyrirvara telji hann að Svandís líti svo á að hún sé komin með frítt spil til að hamast í samstarfsflokkunum.

„Sjálfstæðisflokknum kannski sérstaklega, og muni eins og ég hef orðað það pína Sjálfstæðisflokkinn jafnt og þétt og sjá hvað hann láti bjóða sér,“ segir Sigmundur.

„Ég hef grun um að hann muni láta bjóða sér býsna mikið, þeir vilja komast fram yfir áramót og fram að landsfundinum sínum ímynda ég mér.“

Pólitískur ómöguleiki fyrir VG

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, er á svipuðu máli og formaðurinn og telur Svandísi ætla að valda Sjálfstæðismönnum erfiðleikum það sem eftir er af samstarfinu.  

VG telji sig augljóslega hafa hag af ríkisstjórnarsamstarfinu fram að vori, en það sé mögulega hluti af planinu að geta komið samstarfsflokkunum í vandræði fram að kosningabaráttunni.

„Í mínum huga er augljóst að það er hálfgerður pólitískur ómöguleiki fyrir Vinstri græna að sitja í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar í kosningabaráttu.“

Skynsamlegast að kjósa að vori

Hvað sem ástæðum ályktunarinnar líði henti hún Miðflokknum ágætlega enda telji þeir skynsamlegast að kjósa að vori.

„Þó að mánuðirnir framundan, á meðan ríkisstjórnin helst óbreytt, verði auðvitað í eðli sínu mánuðir stöðnunar.“

Inntir eftir því hvort Miðflokkurinn sé reiðubúinn til að hefja kosningabaráttu fyrr en áætlað var svara þeir báðir játandi.

„Við erum tilbúnir hvenær sem kosningarnar verða. Hvaða áhrif þetta kann að hafa á okkur, ég skal ekki segja til um það. Við höldum bara okkar striki óháð öllum þessum vandræðagangi í ríkisstjórnarflokkunum,“ segir Sigmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert