„Þessi ályktun er veik eins og ríkisstjórnin“

Jóhann Páll segir stjórnmálaflokka gjarnan færast of mikið í fang.
Jóhann Páll segir stjórnmálaflokka gjarnan færast of mikið í fang. Ljósmynd/Aðsend

„Hver dagur sem þessi ríkisstjórn hangir saman er þjóðinni dýr,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, um ályktun VG sem var samþykkt á landsfundi í dag.

Í dag stendur til að landsmenn gangi til þingkosninga 27. september 2025 en ályktunin lýtur að því að stjórnarsamstarfið sé að nálgast leiðarlok og að kjósa eigi fyrr.

Segir Jóhann Páll það lengi hafa legið fyrir að það sé ekki þjóðinni í hag að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi og að þjóðinni sé enginn greiði gerður með því að teygja samstarfið fram á vor.

„Þau eru að taka hag flokks fram yfir hag þjóðar.“

Þorri landsmanna þrái nýja forystu

Samfylkingin sé í stífum undirbúningi við að vinna sér inn traust til að stjórna landinu og taka við stjórnartaumunum sem fyrst.

„Við erum tilbúin og reiðbúin, treysti þjóðin okkur til þess.“

Spurður hvort þess hefði verið óskandi að stjórnarsamstarfinu yrði slitið líkt og kom fram í drögum að ályktuninni, kveðst Jóhann Páll telja að þjóðin geti sjálf ályktað um það að ríkisstjórnin nálgist leiðarlok.

„Og verður að fara frá hið fyrsta. Það þarf engan sérstakan fund í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði til að segja þjóðinni þetta. Þetta auðvitað bara blasir við og þessi ályktun er veik eins og ríkisstjórnin.

„Það sem ég held að þorri landsmanna sé farinn að þrá og eygja eftir er ný forysta og ný ríkisstjórn.“

Jóhann Páll segir VG ekki þurfa að segja þjóðinni að …
Jóhann Páll segir VG ekki þurfa að segja þjóðinni að ríkisstjórnarsamstarfið sé að leiðarlokum komið. Ólafur Árdal

Samstarfinu formlega og efnislega lokið

Hangi ríkisstjórnin saman fram á vor segir Jóhann Páll þjóðina þurfa að þola enn eitt fjárlagaárið þar sem ekki verði tekið á brýnum verkefnum, enda sé stefnu- og verkleysi einkennismerki sitjandi ríkisstjórnar 

Hvað telur þú vaka fyrir forystu VG með því að halda áfram samstarfinu næstu mánuði en þó með yfirvofandi stjórnarslitum?

„Þetta er auðvitað mjög sérstök staða. Í rauninni þýðir þetta að þessu ríkisstjórnarsamstarfi – því óvinsælasta í Íslandssögunni – er formlega og efnislega lokið. Samt vilja þau sitja fram á vor, samt vilja þau kýla í gegn enn ein fjárlögin með þessum flokkum.

Þau álykta að þessu samstarfi sé lokið og einhvern veginn viðurkenna í raun að þetta sé ekki þjóðinni í hag en ætla samt að láta þjóðina sitja uppi með þetta heilt fjárlagaár í viðbót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert