Áætlun Landspítalans vegna leyfisskyldra lyfja á næsta ári gerir ráð fyrir því að heildarkostnaður spítalans vegna þessara lyfja verði 18.803 milljónir króna á árinu 2025. Fjárveiting ársins samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hljóðar hins vegar upp á 16.725 milljónir kr.
„Ef halda skal áfram að greiða fyrir lyf sem þegar hafa verð innleidd og innleiða ný lyf á árinu 2025 til samræmis við önnur Norðurlönd þá stefnir að óbreyttu í 2.078 [milljóna króna] fjárvöntun á árinu 2025,“ segir í umsögn Landspítalans við fjárlagafrumvarp ársins 2025.
Bent er á að notkun og útgjöld vegna leyfisskyldra lyfja og nýrra lyfja fari vaxandi. Stafar það fyrst og fremst af kostnaði vegna lyfja við illkynja sjúkdómum. Nýjum krabbameinslyfjum hafi fjölgað mjög á undanförnum árum. Evrópska lyfjastofnunin samþykkti t.d. 15 ný lyf á árinu 2022. Nýju lyfin verði sífellt kostnaðarsamari en á sama tíma fjölgar nýgreiningum krabbameins vegna mannfjöldabreytinga og hækkandi meðalaldurs. Þá hefur nýlega í grein í Læknablaðinu verið bent á að spáð er 57% aukningu á nýgreindum krabbameinstilfellum á Íslandi frá 2022 til 2040.
Bent er á að Ísland er töluvert á eftir Svíþjóð og Danmörku í innleiðingu nýrra lyfja en fylgir fast á hæla Noregs. „Ef ekki fæst fjármagn fyrir ný lyf á árinu 2025 mun Ísland dragast hratt aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum,“ segir m.a. í umsögn spítalans.