Hjálparsveit skáta í Hveragerði var kölluð út fyrr í kvöld vegna fjölda bíla í vandræðum víða á Kömbum.
Viðbragðsaðilar aðstoðuðu bíla sem komust ekki leiðar sinnar sökum hálku eða snjós en einhverjir smávægilegir árekstrar urðu á milli bíla, segir í tilkynningu frá slysavarnarfélaginu Landsbjörg.
Vegagerðin lokaði Hellisheiði fyrr í kvöld sökum hálku en búið er að opna leiðina til austurs. Enn er lokað til vesturs á meðan verið er að fjarlægja bíla. Varað er við hálku á veginum til austurs í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Einhverjir bílar lentu utan vegar og björgunarsveitarfólk á fjórum björgunarbílum ferjaði fólk og bíla niður af heiðinni.
Aðgerðum var að mestu lokið á tíunda tímanum en skilja þurfti einhverja bíla eftir þar sem þeir voru, segir enn fremur í tilkynningu frá Landsbjörg.