Aukin samkeppni á rafbílamarkaði hérlendis

Una sem er systurfyrirtæki Öskju flytur inn XPENG.
Una sem er systurfyrirtæki Öskju flytur inn XPENG.

Samkeppni hefur aukist umtalsvert á rafbílamarkaði á Íslandi og verð fer lækkandi á ný en á þessu ári hefur verið dýrara að fjárfesta í slíkri bifreið vegna breytinga sem gerðar voru á sköttum og gjöldum um áramótin. 

Viðskiptablaðið greindi frá því að Tesla hafi tilkynnt verðlækkanir sem séu frá 2,9% upp í 6,3%. Nú kosti Model Y frá Teslu frá 6.890.000 krónum en sá bíll var sá mest seldi á Íslandi árið 2023. 

Teslu-bílar hafa selst vel á Íslandi.
Teslu-bílar hafa selst vel á Íslandi. AFP/Justin Sullivan/Getty

Rafbílar frá kínverska framleiðandanum XPENG kom til Íslands á árinu en fyrirtækið framleiðir eingöngu rafbíla eins og Tesla. Valmöguleikarnir hafa því aukist fyrir íslenska neytendur en XPENG bílunum hefur verið vel tekið að sögn Þorgeirs Pálssonar framkvæmdastjóra Unu sem flytur bílana inn. 

„Viðtökurnar á bílunum hafa farið fram úr okkar björtustu vonum og kaupendur eru gríðarlega ánægðir,“ segir Þorgeir og aukið framboð styðji við áætlanir um orkuskipti. 

„XPENG er greinilega að ýta við markaðnum, enda gæðastaðallinn hár og verðmiðinn sanngjarn. Svo skemmir ekki að það er lengri ábyrgð en gengur og gerist á bæði bílum og rafhlöðum. Þetta er jákvætt heilt yfir fyrir bílamarkaðinn hér heima þar sem aukið framboð rafbíla styður við áætlanir um orkuskipti í samgöngum og sjálfbærni,“ segir Þorgeir Pálsson. 

Þróunin í rafbílaheiminum er hröð og margir framleiðendur í Kína sem dæmi. Vöruúrvalið á Íslandi mun því væntanlega bara halda áfram að aukast fyrir íslenska neytendur á næstu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert