Ríkisstjórnarsamstarfið geri markmið Íslands torsótt

Ríkisstjórnarsamstarfið hefur gert erfitt fyrir að fylgja eftir settum markmiðum.
Ríkisstjórnarsamstarfið hefur gert erfitt fyrir að fylgja eftir settum markmiðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að ríkisstjórnarsamstarfið standi í vegi þess að Ísland nái settum markmiðum í orkuöflun.

Þórdís tók þátt í pallborðsumræðum í dag ásamt Lars Aagard, orkumálaráðherra Danmerkur, á viðskiptaþingi í Danmörku sem haldið var í dag samhliða ríkisheimsókn Höllu Tómasdóttur forseta til landsins. 

Þar nefndi hún að Ísland mætti taka sér Dani til fyrirmyndar í orkuöflun, þar sem dönsk stjórnvöld „meina það sem þau segja og segja það sem þau meina“.

Of mikil hökt í ákvarðanatöku

Spurð nánar út í þetta í samtali við mbl.is bendir ráðherra á að Danmörk sé ekki mjög rík af náttúruauðlindum en hafi sett sér skýr markmið fyrir ekkert svo löngu síðan um að ná árangri í grænni tækni.

„Við [Ísland] erum með orkustefnu, nýsköpunarstefnu og markmið í loftslagsmálum. En síðan höfum við framleitt of lítið af raforku undanfarin ár,“ segir Þórdís. 

„Við viljum vera land þar sem ný tækni er unnin og prófuð og þegar það koma tækifæri þar sem við viljum skala hana upp þá viljum við að það sé gert á Íslandi. Þetta segjum við. En þegar slík tækifæri koma þá eru of mikil hökt í ákvarðanatöku.“

Geturðu nefnt dæmi?

„Leyfisveitingakerfið á Íslandi er gríðarlega flókið.“ svarar hún. „Allt of flókið.“

Stjórnarsamstarfið gert erfitt fyrir

Þórdís segir að ráðast þurfi í umbætur á kerfinu svo hægt sé að einfalda það. Hvort sem það sé með breytingu á lagasetningu eða framkvæmd laga innan kerfisins.

Hún segir að Guðlaugur Þór Þórðarson orkumálaráðherra hafa gert mikilvægar breytingar.

„En þær pólitísku takmarkanir sem fylgja þessi stjórnarsamstarfi eru þannig að við náum ekki settum markmiðum í samræmi við langtímastefnumörkun Íslands og tækifærum verðmætasköpunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert