Klerkastjórnin mun riða til falls

Tahmineh Dehbozorgi starfar sem lögfræðingur í Bandaríkjunum.
Tahmineh Dehbozorgi starfar sem lögfræðingur í Bandaríkjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íranska andófskonan Tahmineh Dehbozorgi segir það aðeins tímaspursmál hvenær klerkastjórnin í Íran riði til falls. Efnahagurinn sé í molum og sárafáir Íranar styðji stjórnina.

Dehbozorgi fæddist árið 1998 í Íran en fluttist árið 2015 til Bandaríkjanna með foreldrum sínum.

„Ég varð vitni að margvíslegum mannréttindabrotum og foreldrar mínir áttuðu sig á að þetta væri ekki góður staður til að ala upp stúlku sem vildi verða lögmaður. Ég lá ekki á skoðunum mínum, sem féllu ekki að stefnu klerkastjórnarinnar. Svo að foreldrar mínir vildu gefa mér kost á betra lífi. Við fluttum til Bandaríkjanna [á þjóðhátíðardegi þeirra] 4. júlí 2015, sem var einstök dagsetning,“ segir Dehbozorgi.

Sviptur frelsi án saka

Dehbozorgi heimsótti Morgunblaðið fyrir helgi, en hún er meðal fyrirlesara á ráðstefnunni Markaðir og frumkvöðlar sem hófst klukkan 14 í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Spurð hvers konar mannréttindabrotum hún hafi orðið vitni að rifjar Dehbozorgi upp afdrif afa síns, sem var fangelsaður í byltingunni 1979 og nærri líflátinn.

„Eina ástæðan fyrir því að hann var ekki tekinn af lífi er að hann var heppinn. Amma mín barðist fyrir því að honum yrði sleppt. Þau áttu þrjú börn og ég held að einhver hafi þyrmt honum. Afi minn gerði ekkert af sér. Þá var ekkert réttarríki við lýði í Íran en í kjölfarið var hann settur á svartan lista til lífstíðar,“ segir Dehbozorgi.

Hún rifjar upp þegar klerkastjórnin þvingaði hana og aðrar stúlkur til að hylja hár sitt við upphaf grunnskólans. Það hafi henni þótt skrýtið.

„Af hverju ætti maður að þurfa að gera það? Því annars yrði maður beittur ofbeldi af lögreglunni. Það væri um þetta mælt í lögum og maður þyrfti að fylgja þeim sem kona. Ég var mjög meðvituð um að þetta væri ekki eðlilegt og frá unga aldri hafði ég mjög gaman af því að kynnast annarri menningu. Horfði á bandarískar bíómyndir og hlustaði á málmtónlist, sem var bannað að gera í Íran. Svo áttaði ég mig á ritskoðuninni þegar ég reyndi að afla mér upplýsinga á netinu. Það var lokað fyrir allt,“ segir Dehbozorgi sem var ellefu ára þegar græna byltingin, eða persneska vorið, braust út í Íran, fjölmennustu mótmælin í landinu frá dögum byltingarinnar.

„Mér er minnisstætt að fylgjast með lögreglunni troða fólki inn í lögreglubíla og berja fólk á götum úti. Það gerðist í götunni minni. Fjölskylda mín var ekki pólitísk. Við tókum ekki þátt. En sem unglingur fylgdist ég með því hvernig samfélag okkar færðist sífellt nær því að vera algert eftirlitsríki,“ segir Dehbozorgi og útskýrir aðspurð að þéttriðið net öryggismyndavéla og félagsmiðlar hafi gert stjórnvöldum kleift að fylgjast grannt með fólki. Öll símtöl hafi verið tekin upp. Til dæmis hafi íranska leyniþjónustan hlerað símtal foreldra hennar við lögfræðing í Bandaríkjunum vegna umsóknar um dvalarleyfi. „Fulltrúi leyniþjónustunnar hringdi svo í okkur og sagði að við ættum ekki að tala við þennan lögfræðing enda væri það gegn vilja stjórnvalda,“ segir hún.

Ítarlegt viðtal er við Dehbozorgi í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka