Borgin hætti stuðningi við hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fyrir tillögu um þátttöku borgarinnar …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fyrir tillögu um þátttöku borgarinnar í undirbúningsvinnu flugvallar í Hvassahrauni verði hætt. Samsett mynd

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ætlar að leggja til að Reykjavíkurborg láti af fjármögnun og annarri þátttöku í undirbúningsvinnu vegna hugmynda um flugvöll í Hvassahrauni. Tillöguna hyggst hann leggja til á fundi borgarstjórnar á þriðjudag.

Árið 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um að standa fyrir rannsóknum á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Skýrsla starfshóps, sem skipaður var til að skoða málið, var kynnt 1.október.

Í greinargerð tillögunnar segir að starfshópurinn hafi ekki komist að óyggjandi niðurstöðu þrátt fyrir að umrædd skýrslugerð hafi tekið tvöfalt lengri tíma en upphaflega var áætlað. Þá leggur starfshópurinn til að ráðist verði í frekari rannsóknir vegna málsins. 

„Þetta er tillaga sem okkur í Sjálfstæðisflokknum finnst leiða af sjálfu sér að þurfi að vera lögð fram,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is. 

Skýrslan miðast við ástandið fyrir eldsumbrot

Kjartan segist ekki telja það skynsamlegt að Reykjavíkurborg ráðist í frekari kostnað vegna rannsókna og framkvæmda í tengslum við flugvallarhugmyndir í Hvassahrauni á næstu áratugum, vegna þeirra eldsumbrota og jarðhræringa, sem orðið hafa á Reykjanesskaga frá árinu 2021. 

„Og það sem stingur mest í augu varðandi þessa skýrslu er að hún tekur mið af ástandinu eins og það var áður en eldgosin hófust, sem manni finnst bara ótrúlegt miðað við það sem hefur svo komið fram frá því goshrinan hófst.“

Hann kveðst bjartsýnn fyrir því að tillagan verði samþykkt, en fullyrðir það þó ekki. 

„Ég vona að skynsemin sigri, að menn sjái að það sé vitleysa að setja meira fé og meiri vinnu í þessa hugmynd, ekki síst í ljósi þróunar frá 2021. En við verðum bara að sjá til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert