Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir kosningar blasa við þjóðinni og að Samfylkingin sé vel í stakk búin til fara í þær.
„Við höfum eytt síðustu tveimur árum í að heimsækja fólk á hundruðum funda út um allt land og leggja drög að stefnu í heilbrigðismálum, samgöngu- og atvinnumálum og húsnæðis- og kjaramálum. Við hlökkum til og gleðjumst að þjóðin fái núna tækifæri til segja sína skoðun og kjósa nýtt upphaf,“ segir Logi við mbl.is.
Ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna var slitið í gær og líklegt er að þingkosningar verði haldnar 30. nóvember, að því gefnu að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, samþykki þingrofsbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra sem hann lagði fyrir forsetann í morgun.
Logi segir að Samfylkingin muni eyða næstu dögum í að stilla upp sigurstranglegum listum en að hans mati sé ekki svigrúm til að fara út í prófkjör hjá flokkunum.
Spurður út í atburðarásina í gær þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra boðaði skyndilega til fréttamannafundar og greindi frá því að ríkisstjórnarsamstarfinu væri lokið segir Logi:
„Ég hef enga skoðun á því. Þetta er þeirra verkefni, vandamál og úrlausnarefni. Við í stjórnarandstöðunni getum lítið annað gert heldur en að halda okkur við veruleikann eins og hann birtist.“
Áttir þú ekki von á því að þetta myndi gerast á einhverjum tímapunkti?
„Ég er nú ekki endilega gleggsti stjórnmálaskýrandi í landinu og hef bara ekkert verið að velta þessu fyrir mér,“ segir Logi.
Samfylkingin er sá flokkur sem hefur mælst með langmesta fylgið í skoðanakönnunum undanfarna mánuði og segir Logi að Samfylkingin sé bjartsýn og hnarreist.
„Það er mjög gleðilegt að fólk fái að kjósa eftir allar þessar ömurlegu uppákomur á stjórnarheimilinu undanfarna mánuði,“ segir þingflokksformaður Samfylkingarinnar.