Jóni létt og hann kveðst viss um að fylgi komi núna

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á leið inn í Valhöll síðastliðinn …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á leið inn í Valhöll síðastliðinn föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og forveri Guðrúnar Hafsteinsdóttur í sæti dómsmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, segist aðspurður vera létt yfir málalyktum um stjórnarslit.

Hann segist þegar finna fyrir meðbyr hjá Sjálfstæðismönnum vegna ákvörðunarinnar og er sannfærður um að hið lága fylgi sem flokkurinn mælist með í skoðanakönnunum sé tímabundið ástand.

Lá í loftinu 

Jón hefur verið gagnrýninn á samstarfið um nokkra hríð.

„Þetta lá í loftinu og mín skoðun er sú að með framkomu sinni í nokkurn tíma, sérstaklega eftir flokksfund Vinstri grænna, þá var ekki hægt að líta á málin öðruvísi en að það væri verið að slíta þessu ríkisstjórnarsamstarfi,“ segir Jón.

Vísar hann til ályktunar VG um að ekki yrðu gerðar frekari málamiðlanir í orku- og flóttamannamálum.

„Þetta var því eðlilegt framhald af þeirri atburðarás. Eins og staðan er í dag var enginn frekari grundvöllur til að dvelja við þetta lengur,“ segir Jón.

Margir ánægðir með niðurstöðuna 

Hann segist hlakka til kosningabaráttunnar sem er fram undan og er sannfærður um að flokkurinn eigi mikið inni. Hefur hann mælst með 12-14% fylgi í síðustu könnunum.

„Það er þekkt að þegar þreyta er komin í ríkisstjórnarsamstarf þá er flokkunum refsað í skoðanakönnunum. Maður er mikið í samneyti við fólk um allt land og maður hefur orðið var við þennan refsivönd sem er á lofti. Óþolinmæðin hefur mest snúið að þessu samstarfi. Það hafa margir sem hafa rætt við mig í dag og lýst yfir ánægju með þetta skref formannsins,“ segir Jón. 

Löng og slæm reynsla af vinstri stjórn 

„Ég er því sannfærður um að fylgi sem hefur farið frá flokknum muni ekki gera það til lengri tíma. Þess vegna er ég sannfærður um að við munum endurheimta fylgi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina og samfélagið. Það þarf öflugan Sjálfstæðisflokk til að vega á móti möguleikanum á miðju- vinstristjórn í landinu. Við höfum langa og slæma reynslu af þannig samstarfi eins og t.d. í Reykjavík þar sem stjórn hefur margoft fallið þó að nýir flokkar hafi verið að hlaupa undir bagga til að halda lífi í því,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert