„Svívirðileg móðgun við kennara“

Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri. mbl.is/Karítas

Kennarar í Reykjavík hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir gera alvarlegar athugasemdir við ummæli Einars Þorsteinssonar borgarstjóra á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku.

Vegið að starfsheiðri kennara

„Kennurum í Reykjavík finnst borgarstjóri hafa vegið að starfsheiðri sínum. Orð hans lýsa algjöru skilningsleysi á kennarastarfinu, þar sem hann fullyrðir að kennarar semji sig frá kennsluskyldu, vinnuskyldu og annarri viðveru. Að halda því fram að kennarar sækist eftir minni samveru með börnum er svívirðileg móðgun við kennara sem hafa menntað sig til þess að starfa með börnum. Það sem gerir ummæli hans sérstaklega ámælisverð er að hann er æðsti yfirmaður kennara í Reykjavík,“ segir í ályktun trúnaðarmanna og stjórna Kennarafélags Reykjavíkur og 1. deildar Félags leikskólakennara sem var samþykkt samhljóða á fundi í gær.

Alvarleg og án rökstuðnings

Fram kemur að borgarstjóri velti því upp hvort sveitarfélögin fái rétta vinnuframlagið fyrir þá þjónustu sem þau þurfi lögum samkvæmt að veita. Einnig segi hann að kennarar séu veikari en nokkru sinni fyrr, kenni minna og hafi aukinn undirbúningstíma.

„Þessi orð borgarstjóra eru alvarleg og sett fram án nokkurs rökstuðnings,“ segir í ályktuninni.

„Orðum fylgir ábyrgð og með því að tala á þennan hátt til kennara á opinberum vettvangi samþykkir borgarstjóri virðingarleysi í garð kennara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert