Brynjar Níelsson aftur á leið í framboð?

Brynjar Níelsson er tilbúinn að fara fram aftur ef sameiginleg …
Brynjar Níelsson er tilbúinn að fara fram aftur ef sameiginleg sátt er um hann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst tilbúinn að íhuga mjög alvarlega að fara aftur í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef sameiginleg sátt verður um hann. 

„Ég hef sagt það við forystu flokksins að ef menn telja sig geta nýtt krafta mína á lista einhvers staðar og það er sameiginleg sátt um það þá mun ég íhuga það alvarlega,“ segir hann.

Allir flokkar þurfa að hafa hraðar hendur við að velja á lista því kosningar verða í lok nóvember. Mögulega verður mismunandi eftir kjördæmum hvernig sjálfstæðismenn velja á lista en valið stendur á milli þess að fara í hreina uppstillingu eða tvöfalt kjördæmisþing þar sem trúnaðarmenn myndu fá að kjósa um efstu sætin. 

Tilbúinn að vera á lista í hvaða kjördæmi sem er

Orðrómur hefur verið á kreiki um að hann sé að íhuga framboð í Suðurkjördæmi. Spurður hvort að það sé kjördæmi sem hann sé að íhuga framboð í segir Brynjar:

„Já, það kemur alveg til greina jafnt og annað. Eina krafan sem ég geri er að það sé sameiginleg sátt um mig og þá er ég tilbúinn að vera hvar sem er, þar sem flokkurinn telur sig hafa gagn af mér.“

Brynjar Níelsson hefur áður verið þingmaður í báðum kjördæmum Reykjavíkur. 

Þurfi að tala skýrt fyrir stefnunni

Brynjar segir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi talað fyrir þeim málum sem þurfi að leggja áherslu á í Silfrinu í gær.

Hann segir að fólk vilji að flokkurinn tali skýrt fyrir sjálfstæðisstefnunni en til þess að ná að framfylgja stefnunni þá þurfi flokkurinn að ná góðu fylgi í komandi kosningum.

„En mér hefur fundist menn ekki vera að tala nógu skýrt fyrir þessu og nógu skýrt til flokksmanna og kjósenda okkar. Þess vegna hefur kannski aðeins fjarað undan okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert