Mótmælendur ata málningu á ráðuneytið: Einn handtekinn

Rauð málning á gluggum ráðuneytisins.
Rauð málning á gluggum ráðuneytisins. mbl.is/Eyþór

Hópur fólks á vegum félagsins Ísland Palestína hefur mótmælt fyrir utan utanríkisráðuneytið í morgun. 

Einn hefur verið handtekinn, að sögn lögreglunnar.

Rauðri málningu hefur verið atað á glugga ráðuneytisins í mótmælaskyni og hvítur poki sem líkist líkpoka liggur á gangstéttinni þar fyrir framan.

Mótmælin hófust klukkan níu í morgun.
Mótmælin hófust klukkan níu í morgun. mbl.is/Eyþór

„Ekki gert neitt til þess að stöðva þjóðarmorð“

Á Instagram-síðu félagsins í gær var boðað til skyndimótmæla fyrir utan ráðuneytið.

„Í heilt ár hefur ríkisstjórn Íslands ekki gert neitt til þess að stöðva þjóðarmorð Ísraels á Gasa. Nú er Ísrael að útrýma íbúum Norður-Gasa og í nótt sprengdi Ísraelsher tjaldbúðir fyrir sjúklinga og flóttafólk á sjúkrahúsi á Gasa og brenndi þau lifandi,“ segir á Instagram-síðunni.

Félagið krefst þess m.a. að Ísland slíti stjórnmálasamstarfi við Ísrael og beiti viðskiptaþvingunum gegn ríkinu.

Fór ekki að fyrirmælum lögreglu

Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir við mbl.is að einn hafi verið handtekinn, meðal annars fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert