Óhugsandi að nemandi yrði sóttur á salerni

„Ég er mjög ósátt við það verklag og þessa framkvæmd …
„Ég er mjög ósátt við það verklag og þessa framkvæmd og ég er búin að senda formlegt erindi til viðeigandi aðila og vona að svona lagað gerist aldrei aftur,“ segir skólameistari eftir að lögregla sótti nemanda á salerni Flensborgarskólans í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vissi ekki af þessu, við höfðum enga hugmynd um málavexti eða stöðu málsins,“ segir Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is um mál kólumbíska drengsins Oscars Andres Florez Bocanegra, nemanda við skólann, sem verið hefur til umfjöllunar hér á vefnum síðan í gærkvöldi.

„Við vissum ekki að komið væri að þessum tímapunkti hjá nemandanum sem er á ÍSAN-námsleið hjá okkur,“ heldur skólameistari áfram og vísar til námsleiðar skólans fyrir nemendur af erlendum uppruna.

Höfðu ekki hugmynd um hvað gengi á

Hún kveður stjórnendur skólans ekki hafa verið upplýsta um yfirvofandi aðgerð lögreglu sem í gær sótti Oscar inn á salerni í skólanum.

„Ekki var haft samband og beðið um leyfi til að fá að koma inn í skólann á skólatíma til að leita að nemanda. Okkur var heldur ekki tilkynnt um það formlega né með kurteisislegu samtali hvað stæði fyrir dyrum. Þannig að við höfðum ekki hugmynd um hvað gengi á og ekki einu sinni hugmyndaflug til að ímynda okkur að nemandi yrði sóttur á salerni skólans,“ segir Erla sem er allt annað en ánægð með háttsemi lögreglu.

„Ég er mjög ósátt við það verklag og þessa framkvæmd og ég er búin að senda formlegt erindi til viðeigandi aðila og vona að svona lagað gerist aldrei aftur,“ heldur hún áfram og kveðst aðspurð hafa sent erindi sitt til Útlendingastofnunar og heimferðar- og fylgdardeildar ríkislögreglustjóra og gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmd sem hún telur fyrir neðan allar hellur.

Lýkur skólameistari máli sínu með því að hún hafi þungar áhyggjur af stöðu málsins og Oscari. „Við höfum engar fregnir fengið af honum í dag,“ segir Erla Sigríður Ragnarsdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert