Ágætur samhljómur um að klára fjárlög

Birgir mun funda á ný með þingflokksformönnum á morgun.
Birgir mun funda á ný með þingflokksformönnum á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, fundaði með þingflokksformönnum í morgun og var „ágætur“ samhljómur um að klára fjárlög fyrir Alþingiskosningar 30. nóvember.

„Það var svona ágætur samhljómur um það að reyna að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarps og þeirra mála sem beinlínis hafa áhrif á það,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Hann segir að þingflokksformenn muni auðvitað ræða þetta mál við þingflokka sína og er svo áætlað að hann fundi aftur á morgun með þingflokksformönnum.

„Þar sem við höldum áfram að fara yfir hvernig við praktískt högum tíma okkar í þinginu á næstu dögum og vikum,” segir Birgir í samtali við mbl.is.

Stefnt að þingfundi á morgun

Hvernig verða störf þingsins fram að kosningum?

„Eins og ég sé þetta fyrir mér núna þá verður ekki mikið um þingfundi heldur verður stefnan tekin á það að hafa fundina bara þegar nauðsynlegt er vegna afgreiðslu þeirra mála sem raunverulega á að klára. Nefndirnar sem hafa hlutverki að gegna í fjárlagavinnunni, þær auðvitað munu halda áfram að starfa,“ segir Birgir.

Hann segir að eðli málsins samkvæmt þá sé kosningabarátta hafin og því sé áherslan hjá þingmönnum að heyja sína kosningabaráttu í sínum kjördæmum.

Stefnt er að þingfundi klukkan 10.30 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert