„Fengum óvenju alvarlega bilun“

Samsett mynd/Míla/Colourbox

„Það er enn þá verið að rýna atvik og komast fyrir horn í þessari bilun,“ segir Daði Sigurðarson, framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Mílu.

Alvarleg bilun kom upp hjá Mílu á Akureyri í gær. Rof varð á fjarskiptasambandi fyrir norðan en hvorki var hægt að notast við samskipti í gegnum síma eða net né í gegnum net talstöðva í um 17 mínútur. Þá reyndist Tetra-sambandið óstöðugt en Tetra-kerfið er neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi.

„Við fengum óvenju alvarlega bilun, eina af þeim alvarlegri á síðustu árum, sem olli því að við misstum rafmagn á tækjabúnaði í rúman stundarfjórðung,“ segir Daði en bilunina má rekja til rafstöðvar á Akureyri.

Búið að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig

Hann segir að varaaflskerfi sem eru gerð til að taka á móti öllum straumrofum hafi ekki virkað en þau eiga að tryggja að fjarskipti virki á meðan rafmagn er ekki til staðar. Daði segir að bráðabirgðaviðgerð hafi lokið í gær.

„Það var stýring í rafstöð sem bilaði og það er verið að gera við hana í dag. Til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist ekki aftur þá er færanleg varavél á staðnum sem er tilbúin ef rafmagnið færi af. Við erum búin að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.“

Daði segir verulega slæmt þegar svona gerist og þetta er atvik sem Míla lítur alvarlegum augum. Hann segir að gerðar verði allar þær úrbætur sem þurfi til svo tryggt sé að þetta gerist ekki aftur.

„Við biðjumst velvirðingar á þessu atviki og munum bæta það í alla staði. Við erum í sambandi við aðila á þessum markaði og Fjarskiptastofu sem við munum skila skýrslum til,“ segir Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert