Kannast ekki við stuld á málefnum

Miðflokkurinn, sem undanfarnar vikur hefur mælst með allt að 18% fylgi, er sagður hafa fengið óánægjufylgi Sjálfstæðisflokksins til sín.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segist vonast til þess að fylgið haldist.

„Við höfum horft upp á jafnan stíganda við Miðflokkinn. Svona 0,3-0,5% við flokkinn á mánuði. Því vonast maður til þess að það þýði meiri festu í fylginu. En ég held að við þurfum að segja meira af því sama. Mál sem við höfum verið að setja á oddinn alveg síðan á síðasta kjörtímabili eru öll í deiglunni í dag og við finnum það strax að komið hafa fram stjórnmálamenn og frambjóðendur hinna ýmsu flokka sem segjast sömu skoðunar og við höfum haft síðustu 6-7 ár,“ segir Bergþór.

Bergþór er einn þriggja fulltrúa af hægri væng íslenskra stjórnmála sem ræddi við Dagmál. Þar voru einnig þau Bryndís Haraldsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum og Sigmar Guðmundsson frá Viðreisn.

Hefur valið að vera bundinn í báða fætur

En hafið þið ekki verið svolítið að stela málum frá Sjálfstæðisflokknum sem hefur verið bundinn í báða fætur í ríkisstjórnarsamstarfinu?

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið að vera bundinn í báða fætur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ef að það að horfa til þess að vilja báknið burt þá hefur lítt verið litið til þess hjá okkar bestu sjálfstæðisþingmönnum undanfarin ár,“ segir Bergþór og heldur áfram:

„Ég vil nú ekki segja að við séum að stela því en það breytir því ekki að við höfum verið að leggja áherslu á að rekstur báknsins hefur verið algjörlega stjórnlaus allt of lengi. Við teljum okkur einnig vita að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað vera á þeirri braut sem hann hefur verið á undanfarin sjö ár. En þar hefur hann samt verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert