Óli Björn kveður þingið

Óli Björn tilkynnir þetta skömmu eftir að Þórdís Kol­brún vara­formaður …
Óli Björn tilkynnir þetta skömmu eftir að Þórdís Kol­brún vara­formaður lýsti því yfir að hún gæfi kost á sér í 2. sæti á lista flokksins í Suðvest­ur­kjör­dæmi, sem er kjördæmi Óla. mbl.is/Hallur Már

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri í komandi kosningum.

„Ákvörðunin hefur legið fyrir í nokkurn tíma en fyrr í dag gerði ég þingflokki okkar grein fyrir henni,“ skrifar hann í grein á vef Sjálfstæðisflokksins en Óli Björn var þingflokksformaður frá kosningum 2021 fram í september 2023.

„Ég mun gera mitt til að tryggja góðan árangur [í kosningum 30. nóvember]. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins þurfa að fylgja hugmyndum eftir af ástríðu og sannfæringu. Sýna staðfestu í baráttunni fyrir frelsi einstaklingsins og fullveldi landsins. Þeirri baráttu legg ég lið í öflugri bakvarðarsveit Sjálfstæðismanna um allt land.“

Þröngt á þingi þegar Þórdís mætir

Óli Björn tilkynnir þetta skömmu eftir að Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, vara­formaður flokks­ins, lýsti því yfir að hún gæfi kost á sér í 2. sæti á lista flokksins í Suðvest­ur­kjör­dæmi – en ekki í en Norðvesturkjördæmi sem er hennar heimavöllur.

Í prófkjörinu mun hún því keppa við Jón Gunnarsson, fyrrv. dómsmálaráðherra, sem hyggst einnig bjóða sig fram í 2. sæti. Búast má við því að Bjarni Benediktsson formaður sækist eftir 1. sæti í kjördæminu.

Rósa Guðbjarts­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar, segist einnig íhug­a al­var­lega að bjóða sig fram á lista ­flokks­ins í kjördæminu, og þá of­ar­lega.

Það er því ljóst að færri komast að en vilja í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi, sem hefur á liðnum árum verið helsti vígvöllur sjálfstæðismanna.

Stundum reynt á þolrifin

Í greininni þakkar Óli samflokksmönnum sínum fyrir samstarf síðustu ára, og segist í starfi sínu hafa byggt á hugmyndafræði sjálfstæðisstefnunnar.

„Og það hefur á stundum reynt á þolrifin,“ bætir hann við.

Landsmenn ganga til kosninga þann 30. nóvember og hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt á brattann að sækja að undanförnu samkv. skoðanakönnunum. Óli telur reyndar flokkinn hafa náð vopnum sínum aftur.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert