„Skiptir engu máli“

Bjarni Benediktsson að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Bjarni Benediktsson að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Hákon

„Það bara skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli eru verkefnin sem við erum að sinna og við viljum bara vera í þessu til að ná árangri.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra inntur eftir því hvort honum þyki leitt að stjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sé lokið. 

Stemningin „ágæt“ eftir atvikum

Bjarni tekur við matvæla-, félags- og vinnumarkaðsráðuneytunum af fráfarandi ráðherrum VG.

Spurður hvort sátt hafi verið um það á síðasta ríkisstjórnarfundi flokkanna þriggja í dag svarar ráðherrann játandi. Hann segir stemningu á fundinum hafa verið ágæta eftir atvikum.

„Það var ágætis sátt um það milli okkar flokkanna sem erum í starfstjórninni.“

Kveðst hann hafa lagt það til að þess yrði óskað við forseta Íslands að ríkisráðsfundur yrði haldinn þar sem lausn þeirra ráðherra sem láta af störfum verði staðfest. 

Ríkisráðsfundur verður haldinn klukkan 18 á morgun. 

Má segja að Svandís sé enn ráðherra

Misskilnings virðist hafa gætt um hvort ráðherrar VG væru enn ráðherrar eður ei í gær og í dag. Aðspurður segir forsætisráðherra það vera svo samkvæmt forsetaúrskurði að ráðherrar gegni embættinu þar til annar taki við því, jafnvel þó hann hafi fengið lausn.

Inntur eftir því hvort Svandís sé enn ráðherra svarar Bjarni:

„Já, það má segja það og sat hér ríkisstjórnarfund og mætir á ríkisráðsfund eins og aðrir ráðherrar.“

Var til umræðu hvort VG myndi endurskoða afstöðu sína gagnvart áframhaldandi samstarfi í starfsstjórn?

„Nei, nei, það var ekki til umræðu.“

Fjárlög kláruð án meirihluta áður

Aðspurður segir hann ekki hafa verið til umræðu á fundinum hvert áframhald starfstjórnarinnar verði eða hennar helstu verkefni. Helst hafi það verið formsatriði hennar sem voru til umræðu

„Hvað þær gera, hvert er þeirra hlutverk og svo framvegis. Við hyggjumst svo í starfsstjórninni halda fund þar sem við undirbúum tillögur fyrir þingið. Vegna fjárlaganna sérstaklega.“

Hann segir samtal þurfa að eiga sér stað, inntur eftir því hvort búast megi við því að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 verði samþykkt undir starfstjórn.

„Nú er enginn starfandi meirihluti. Það er starfstjórn og það byggir þá alfarið á samkomulagi í þinginu að það takist að ná saman milli flokka um það verklag sem þurfi að nota til að loka fjárlögunum.“

Hann segir fordæmi fyrir því að fjárlög hafi verið kláruð án starfandi meirihluta og hann telji það enn vel raunhæft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert