Bjarni afnemi tolla á eggjum

Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna erindi vegna málsins.
Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna erindi vegna málsins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson/mbl.is/Karítas

Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, sem tók í dag við embætti matvælaráðherra, erindi þar sem hann er hvattur til að leggja til við Alþingi að tollar á eggjum verði afnumdir.

Með þessu yrði verðlagi haldið í skefjum á meðan innanlandsframleiðsla annar ekki eftirspurn. Skortur er á eggjum frá innlendum framleiðendum og hefur innflutningur eggja aukist mjög á árinu vegna þess, að því er segir í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.

Ýmsar ástæður

„Ýmislegt útskýrir að innlend eggjaframleiðsla annar ekki eftirspurn, þar á meðal fjölgun íbúa og ferðamanna, stórar pantanir á ferskum eggjum frá skemmtiferðaskipum yfir sumartímann og samdráttur í framleiðslugetu sumra eggjabúa þar sem ekki eru lengur veittar undanþágur frá aðbúnaðarreglugerðum,“ segir í tilkynningunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. mbl.is/María

Þar kemur einnig fram að félagið hafi í erindi sínu til Bjarna bent á að ástandið sé erfiðara en áður hafi þekkst og ekkert bendi til þess að það lagist í bráð.

Stórnotendur í vanda

Í tilkynningunni segir að enginn eggjaskortur hafi þó verið í verslunum, þótt úrvalið hafi verið minna.

„Það hefur hins vegar reynst heildsölum og dreifingarfyrirtækjum erfitt að útvega stórnotendum, t.d. veitingahúsum, bakaríum og fleiri fyrirtækjum í matvælaiðnaði, nægilegt hráefni í framleiðslu sína. Framundan er mesta bakstursvertíð ársins hjá heimilunum og þörf matvælaframleiðenda fyrir hráefni sömuleiðis í hámarki í aðdraganda jóla,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert