„Er vel undirbúinn og klár í slaginn“

Guðmundur Árni Stefánsson, varformaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Árni Stefánsson, varformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er til í slaginn og ætla að gefa kost á mér í oddvitasætið fyrir Samfylkinguna í Kraganum,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.

„Við áttum hér góðar kosningar í Hafnarfirði fyrir tveimur og hálfu ári og ég er bjartsýnn á að Samfylkingin nái inn fjórum mönnum í kjördæminu í þingkosningunum. Það er góð staða á flokkum á landsvísu og ekki síst í mínu kjördæmi,“ segir Guðmundur Árni við mbl.is.

Guðmundur Árni sat síðast á þingi árið 2005. Hann var þingmaður Alþýðuflokksins og Samfylkinguna árin 1993 til 2003 og þingmaður fyrir Samfylkinguna 2003 til 2005. Hann var heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra 1993-1994 og félagsmálaráðherra 1994. Þá var hann bæjarstjóri í Hafnarfirði á árunum 1986 til 1993.

Guðmundur var meðal annars sendiherra Íslands í Svíþjóð og síðar í Bandaríkjunum en eftir 16 ára hlé sneri hann aftur í pólitíkina fyrir tveimur og hálfu ári síðan þegar hann tók sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir sveitastjórnarkosningar en þar vann Samfylkingin stórsigur og bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum.

„Ég er vel undirbúinn og á von á því að við getum stillt upp öflugum og sigurstranglegum lista,“ segir Guðmundur Árni.

Ljóst er að Guðmundur Árni fer í baráttu við Þórunni Sveinbjarnardóttur um oddvitasætið en Þórunn hefur ákveðið að gefa áfram kost á sér í oddvitasætið sem hún var í fyrir kosningarnar 2021.

Snýst ekki bara um oddvitasætið

„Þórunn er sitjandi þingmaður og okkar félagar í flokknum taka afstöðu um hver eigi að leiða listann. Þetta snýst ekki bara um oddvitasætið heldur að raða upp sigurstranglegum lista. Aðalatriðið er að við fáum nýtt upphaf í íslenskri pólitík. Við þurfum jafnaðarstjórn á Íslandi og við erum klár í bátana,“ segir Guðmundur Árni.

Hann segir að í kvöld verði fundur þar sem formlega verður ákveðið að skipa uppstillinganefnd sem hafi tíu daga til þess að leggja fram tillögu. Laugardaginn 26. október verði svo endanleg ákvörðun tekin um skipan á listanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert