Kennarar í MR samþykkja verkfall

Menntaskólinn í Reykjavík.
Menntaskólinn í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirgnæfandi meirihluti kennara í Menntaskólanum í Reykjavík (MR) hefur samþykkt að boða verkfall 11. nóvember næstkomandi, hafi samningar ekki náðst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandinu.

81 prósent samþykktu að boða verkfall og MR er annar framhaldsskólinn sem boðar til verkfalls en Fjölbrautaskóli Suðurlands samþykkti verkfallsboðun í síðustu viku. 

Þar með hafa félagsmenn Kennarasambandsins í tíu skólum samþykkt verkfallsaðgerðir í lok mánaðar og byrjun næsta mánaðar. 

„Öll aðildarfélög Kennarasambandsins eru án kjarasamnings; framhaldsskólafélögin tvö, FF og FS, hafa verið án samnings síðan 31. mars síðastliðinn. Grunnskólafélögin tvö, FG og SÍ, leikskólafélögin tvö, FL og FSL, og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum hafa verið án samnings síðan 31. maí síðastliðinn,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Kjaradeilan er enn á borði ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert