Senda reglulega ábendingar vegna lyfjaávísana

Pillur - töflur - lyf -
Pillur - töflur - lyf - Ljósmynd/Colourbox

Stofnun Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) sendir embætti landlæknis reglulega ábendingar vegna lyfjaávísana lækna. Sigurður H. Helgason, forstjóri SÍ, segir að yfirleitt séu ábendingarnar vegna athugasemda við fagleg vinnubrögð þó að einnig geti þær beinst samhliða að þeim kostnaði sem fylgir lyfjaávísun læknanna.

Hann segir að hátt hlutfall lyfjaávísana ávana- og fíknilyfja veki t.a.m. eftirtekt eftirlitsaðila hjá stofnuninni.

Eins og fram kom á mbl.is eru um tuttugu læknar til rannsóknar hjá embætti landlæknis vegna lyfjaávísana. Rannsóknirnar byggjast á grunni ábendinga sem meðal annars koma frá Sjúkratryggingum.

Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Læknum beri að hafa hagkvæmni í huga 

„Læknum ber að vinna eftir bestu þekkingu en einnig að hafa hagkvæmni heilbrigðiskerfisins að leiðarljósi. Við erum að sjálfsögðu einnig að hafa eftirlit með því hvort að þeirra vinnubrögð séu góð ef miðað er við okkar þekkingu á því. Ef við sjáum vísbendingu um að svo sé ekki þá eru þeir ekki að vinna samkvæmt þeim samningum sem þeir starfa eftir,“ segir Sigurður.

Að sögn hans sinna tveir starfsmenn eftirliti en jafnframt starfar fagfólk úr heilbrigðisgeiranum, m.a. læknar hjá stofnuninni. Koma þeir líkt og lögfræðingar og fleiri að meðferð mála þar sem landlækni eru sendar ábendingar.

„Það sem getur vakið athygli er þegar einhver lyf eru skrifuð út eða meðferð veitt í ákveðinni tíðni sem telst óvenjuleg. Þá leitum við eftir skýringum,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert