Blöskraði aðkoman í flugstöðinni

Farþega ofbauð ástandið á sorpdunkum áður en komið er að …
Farþega ofbauð ástandið á sorpdunkum áður en komið er að öryggisleit í flugstöðinni eins og þeir litu út í morgun og sendi mbl.is mynd. Ljósmynd/Aðsend

„Tunnurnar sem um ræðir í þessu tilviki eru staðsettar rétt áður en farið er í gegnum einstefnuhlið að öryggisleitinni á flugvellinum,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við mbl.is sem fékk senda mynd flugfarþega sem leið átti um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í morgun og blöskraði það sem við honum blasti.

„Farþegar sem koma í hópum losa sig oft við vökva og mat þarna áður en komið er í öryggisleitina en eru mögulega ekki með upplýsingar um að það er einnig hægt innan öryggishliðs á sérstöku flokkunarsvæði,“ bendir Guðjón á og segir úrbætur væntanlegar.

Stórir hópar oft á ferð

„Við erum einmitt að ráðast í að setja upp merkingar til að koma þeim upplýsingum enn betur til skila við farþega. Þannig getum við dregið úr uppsöfnun á sorpi þarna á háannatíma,“ segir upplýsingafulltrúinn og bætir því við að stórir hópar fari oft um flugstöðina og þurfi þá mögulega að losa sig við nesti eða morgunverðarpakka gististaða sem fólk hafi til dæmis snætt í rútu á leið til flugvallarins.

„Þjónustuaðilar sem annast umhirðu á flugvellinum fylgjast vel með flugstöðinni og eru með mikla viðveru á þessu svæði á álagstímum og bregðast við ef sorp safnast upp. Á háannatíma á morgnana er álagið mikið á stuttum tíma og áhersla á að tryggja hreinlæti í flugstöðinni þá sem og á öðrum tímum dags,“ heldur Guðjón áfram.

Farþegar geri starfsfólki aðvart

„Í morgun var hins vegar um veikindi að ræða í starfshópnum sem tafði þrif. En sorpið á myndinni hafði verið fjarlægt þegar þessi mynd var tekin upp úr klukkan 10 í morgun,“ segir hann og sendir mynd af svæðinu sem hér má sjá, en svo hafi viljað til að samstarfsmaður hans hafi smellt af á síma sinn í morgun.

Staðan á tunnunum snemma á ellefta tímanum í morgun. Guðjón …
Staðan á tunnunum snemma á ellefta tímanum í morgun. Guðjón segir unnið að því að koma því til skila til farþega að þeir geti einnig losað sig við sorp er nær öryggisleitaraðstöðu er komið en hvetur farþega til að láta starfsfólk vita af öllum óþrifnaði í stöðinni. Ljósmynd/Isavia

Guðjón er mjög áfram um að farþegar láti starfsfólk flugstöðvarinnar vita af því megi eitthvað betur fara, „við erum vel meðvituð um það ef svona ástand skapast og bregðumst við eins fljótt og hægt er“, segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert